Uppfærist á 60 mínútna fresti

Sveitarfélagið Vopnafjarðarhreppur kennir sig við samnefndan, fjörð norðan við Héraðsflóa og er örnefnið er dregið af Eyvindi Vopna einum af þremur landnámsmönnum Vopnafjarðar. Sunnan við hann gnæfa miklir fjallgarðar en norðan við er láglendi sem hækkar upp á Sandvíkur- og Bakkaheiðar en þó eru þar nokkur há fjöll sem skera sig úr umhverfinu. Inn af firðinum ganga þrír dalir en þar er undirlendi hvað mest í Hofsárdal. Út í fjörðinn skagar Kolbeinstangi, langur og mjór, en þar stendur kauptúnið Vopnafjörður. Í sveitarfélaginu búa í dag um 660 manns.

Vopnafjörður

Íbúafjöldi:

660

Póstnúmer:

690

Sveitarfélag:

Vopnafjarðarhreppur

Á Vopnafirði eru leik-, grunn- og tónlistarskóli og eru um 70 nemendur í grunnskólanum og um 40 í leikskólanum. Auk þess er útibú frá Framhaldsskólanum á Laugum, en hægt er að taka 1. ár í framhaldsskóla í svokölluðu dreifnámi.

Kaupvangur

Atvinna og samfélag

Fjöldi fyrirtækja eru á staðnum og aðalatvinnuvegir eru útgerð, fiskvinnsla, þjónusta og úrvinnsla landbúnaðarafurða auk hlunnindabúskapar.  Þar má finna stórt uppsjávarfrystihús, smábátaútgerðir og framleiðslu á hákarli og harðfiski. Auk þess eru ýmis fyrirtæki á staðnum, t.d. bifreiða- og vélaverkstæði, efnalaug og fata-/handavinnuverslun og hárgreiðslustofa.  Þá er æðardúnsvinnsla starfrækt á Vopnafirði

Í þorpinu er að finna íþróttahús, með þreksal, sal til leigu auk gufu- og sólbaðsaðstöðu. Sparkvöllur er við grunnskólann, leikvellir, fótboltavöllur, frisbígolfvöllur, frábær 9 holu golfvöllur og strandblaksvöllur.

Vopnafjarðakirkja og Hofskirkja eru starfræktar í sveitarfélaginu.

Vopnafjörður hefur verið verslunarstaður frá tímum einokunarinnar á 17. og 18 öld. Við upphaf 19. aldar hóf danska verslunarfélagið Örum & Wulff starfsemi í plássinu og í því skyni voru byggð nokkur falleg hús. Eitt þeirra er svonefndur Kaupvangur sem reist var árið 1882 af Fredrik Bald, byggingameistara Alþingishússins. Árið 2005 gekk húsnæðið í gegnum alls herjar yfirhalningu og því komið upprunalegt horf. Í dag er Kaupvangur einhver mesta bæjarprýði Vopnafjarðarbæjar og þjónar alls kyns menningartengdu hlutverki. Í Vopnafjarðarhreppi er fjölbreytt og öflugt félagsstarf.

Sundlaugin í Selárdal

Verslun og þjónusta

Hvað varðar opinbera þjónustu þá má finna á Vopnafirði pósthús, banka, vörumóttöku og lögreglustöð auk þess sem rekið er hjúkrunarheimili (með sjúkraplássi), heilsugæsla og apótek.  Matvöruverslun er rekin í Kauptúni og þar má einnig finna Vesturfaramiðstöð Austurlands.

Fyrir ferðafólk sem kýs að gista á Vopnafirði skal bent á að þar er rekið hótel allt árið um kring auk þess einnig má komast í ósvikna bændagistingu víðs vegar um sveitina. Miðsvæðis í bænum er tjaldsvæði sem eingöngu er opið yfir sumartímann. Sundlaug Vopnafjarðar er staðsett við árbakkann í Selárdal og er á margan hátt merkilegt mannvirki sem vert er að heimsækja.  Nokkra veitingastaði má einnig finna á Vopnafirði, einhverjir opnir allt árið um kring, en aðrir á sumrin.

Í Hofsárdal, stendur gamli sveitabærinn Bustarfell sem er einn af elstu og best varðveittu bæjum sinnar tegundar á landinu, þar má finna athyglisvert og lifandi minjasafn. Í Bustarfelli hefur búskapur haldist óslitinn innan sömu fjölskyldunnar síðan 1532.

Hellisheiði eystri

Þjónusta við ferðamenn

Í Vopnafirði er óspillt náttúra, með fjölbreyttu dýralífi ávallt innan seilingar.  Þar eru einnig gjöfular laxveiðiár á borð við Selá og Hofsá en ágætis veiðivötn er einnig að finna upp á Fossheiði og víðar. Strandlengja Vopnafjarðar er mjög áhugaverð og er fuglalíf er mjög fjölskrúðugt. Margar fallegar og áhugaverðar náttúruperlur eru í Vopnafirði auk skemmtilegra gönguleiða sem finna má í sveitarfélaginu og hafa verið gefin út svæðisbundin göngukort.

Allar leiðir frá Vopnafirði liggja um fjallendi. Aðalvegurinn liggur um nýjan (2011) þjóðveg í Vesturárdal, sem nær yfir 400 m hæð þar sem vegurinn tengist hringveginum. Einnig má velja leiðina um Hellisheiði eða velja Sandvíkurheiði og áfram með ströndinni til Húsavíkur. Fyrir þá sem kjósa að fara flugleiðina má geta þess að flogið er fimm daga vikunnar frá Akureyri til Vopnafjarðar og Þórshafnar.

Félagasamtök

  • Félag eldri borgara
  • Kvenfélagið Lindin
  • Björgunarsveitin Vopni
  • Slysavarnardeildin Sjöfn
  • Kirkjukór
  • Karlakór
  • Framfara- og ferðamálasamtök
  • Kiwanisklúbburinn Askja
  • Félög um gangnakofana
  • Hestamannafélagið Glófaxi
  • Ungmennafélagið Einherji
  • Vinir Vopnfirðingasögu

Önnur Bæjarfélög