Uppfærist á 60 mínútna fresti

Breiðdalsvík er lítið og tiltölulega ungt fiskiþorp sem leynir á sér. Þaðan sem þorpið stendur við ströndina er fagurt útsýni yfir svartar strendur og upp á fjallstinda. Á Breiðdalsvík er hægt að ferðast aftur í tímann með heimsókn í matvöruverslun staðarins, Kaupfjelagið.  Við Tinnudalsá má finna aldamótaskóg. Einnig er vinsælt að fá sér göngutúr um Meleyrina,  labba uppað Flögufosi og kíkja á  Beljanda í Breiðdal.  Íbúar í Breiðdal  og Breiðdalsvík eru um 185

Breiðdalsvík

Íbúafjöldi:

185

Póstnúmer:

760

Sveitarfélag:

Fjarðabyggð

Á Breiðdalsvík er rekinn grunn- og leikskóli. Skólinn var sameinaður Stöðvarfjarðarskóla árið 2019. Eftir það er skólinn kenndur við bæði byggðarlögin og fara nemendur milli staða annan hvorn dag nema á föstudögum, en þá er kennt á sitthvorum staðnum. Á Breiðdalsvík eru um 35 börn á leik- og grunnskólaaldri. Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur er með starfsemi á Breiðdalsvík.

Breiðdalsvík

Atvinna og samfélag

Nokkur fyrirtæki eru á svæðinu og má þar nefna útgerð, fiskverkun, brugghús, ferðaþjónustu, smíðaverkstæði og verktakafyrirtæki sem er með stórar vinnuvélar. Þá er töluvert um hefðbundinn landbúnað auk tveggja bifreiðaverkstæða og er annað þeirra viðurkennt Toyota verkstæði.

Á Breiðdalsvík er lítið íþróttahús, útisundlaug, sem er opin á sumrin og frisbígolfvöllur.

Breiðdalssetur

Verslun og þjónusta

Matvöruverslunin Kaupfjelagið er á Breiðdalsvík og N1 rekur bensíndælur. Læknir og hjúkrunarfræðingur koma á heilsugæsluna aðra hvora viku. Þá er hægt að fá send lyf þangað.  Landsbankinn og Íslandspóstur eru með útibú á staðnum. Dagvist aldraða stendur í miðjum bænum en þar er opið á virkum dögum og þar gefst eldri borgurum færi á að mæta og fá heitan mat í hádeginu og föndra og spila.  Hægt er að nálgast vörur með vöruflutningum og eru þær keyrðar beint heim.

Almenningssamgöngur til og frá svæðinu eru til staðar. Rúta gengur frá Breiðdalsvík, til Reyðarfjarðar og þaðan tengist hún til Egilsstaða og Neskaupstaðar.

Flögufoss

Þjónusta við ferðamenn

Þjónusta við ferðamenn hefur aukist töluvert á sl. árum. Ýmsir gististaðir eru í boði, hvoru tveggja í þorpinu og inni í Breiðdal. Þá er tjaldstæði í miðju þorpinu. Veitingastaðir eru fjórir og eru tveir þeirra opnir allt árið um kring. Á Breiðdalsvík er Bílasafn auk þess sem Breiðdalssetur starfar sem rannsóknarsetur Háskóla Íslands.

Á Heydölum er kirkja og prestsetur.

Veiðifélagið Strengir rekur veiðihús við Breiðdalsá og selur lax- og silungsveiði í ána.

Félagasamtök

Nokkur virk félagasamtök og sjálfboðaliðasamtök eru á Breiðdalsvík;

  • Félag eldri borgara
  • Björgunarsveitin Eining
  • Rauði krossinn
  • Kirkjukór, samstarf við Stöðvarfjarðarkirkju
  • Kvenfélagið Hlíf

Önnur Bæjarfélög