Uppfærist á 60 mínútna fresti

Skemmtilegt um Borgarfjörð

Í Hafnarhólma er eitt besta aðgengi að lundabyggð í heimi og þar er tilvalið dvelja í góða stund, njóta fuglalífsins og fylgjast með sjómönnunum við vinnu sína.

Borgfirðingar fara uppyfir ef þeir ætla upp í Hérað og onyfir þegar þeir fara heim á Borgarfjörð.

Sagt er að drottning íslenskra álfa búi í Álfaborginni, kíktu í heimsókn!

 

Borgarfjörður eystri

Vegalengd frá Egilsstöðum

70 km.

Dæmi um gönguleiðir

Álfaborg, Víknaslóðir, Hafnarhólmi

Íbúafjöldi

109

Borgarfjörður eystri er nyrsti fjörðurinn sem gengur inn í Austfjarðahálendið. Formfagur og litskrúðugur fjallahringur umlykur dalinn sem gerir Borgarfjörð að einu fegursta byggðarlagi á landinu. Borgfirðingar stunda landbúnað, sjómennsku og ferðaþjónustu. Bakkagerði er fallegt sjávarþorp þar sem búa um 100 manns. Þorpið er áhugavert, samsett af dreifðri byggð býla og engin götunúmer þar að finna. Íbúarnir eru gestrisnir og listfengir og gangast árlega fyrir vinsælum tónlistarhátíðum. Kirkjan er prýdd altaristöflu eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval.

Útsýnisskífan á Álfaborginni

Afþreying

Við þorpið er Álfaborgin þar sem drottning íslenskra álfa er sögð búa og þar liggur göngustígur að útsýnisskífu. Í Hafnarhólmanum er eitt besta aðgengi til fuglaskoðunar hérlendis og er svæðið sérstaklega þekkt fyrir blómlega lundabyggð.

Í Hafnarhólma er frábær aðstaða til þess að skoða lunda - og aðra fugla

Í og við Borgarfjörð er eitt best skipulagða göngusvæði hérlendis með stórbrotnu og fjölbreyttu landslagi. Gönguleiðir í Stórurð og á Víknaslóðir eru góð dæmi um það. Frá Borgarfirði er hægt að komast til Breiðuvíkur, Húsavíkur og Loðmundarfjarðar eftir jeppaslóða.

Svavar Knútur við Lindarbakka

Það er ótrúlega erfitt að nefna einn ákveðinn stað á Austfjörðum sem ég tengi sterkar við en aðra, enda eiga Austfirðir ríflega hnefafylli af hjarta mínu. Djúpivogur og Breiðdalsvík eru dásamleg sjávarpláss með ríka sögu og menningararf sem blæðir úr hverjum steini og þúfu, með bæjarstæði sem fylla hjartað að fornum kenndum. Skriðuklaustur, rammur minnisvarði um stóra drauma og erfiða tíma og fegurð sem lifir, bæði í formi bókmennta og byggingarlistar er líka einn af mínum uppáhaldsstöðum. Seyðisfjörður og Vopnafjörður, hvor á sinn hátt einstakur og svo má lengi telja. En hjartað mitt slær á endanum þyngst handan Dyrfjalla, í Borgarfirði eystri, þar sem amma mín bjó og þar sem ég er alltaf kominn heim. Þar kemur allt heim og saman í hjarta mínu. Hafið, fjöllin, álfaborgin, smábátahöfnin, líf manna og fugla ofin saman í fagurt teppi sem breiðir sig yfir sálina.

Ég finn djúpt þakklæti þegar ég kem austur á firði og þetta þakklæti kórónast í Borgarfirðinum.

Svavar Knútur, tónlistarmaður

 

Önnur Bæjarfélög