Uppfærist á 60 mínútna fresti

Skemmtilegt um Fáskrúðsfjörð

Fáskrúðsfjörður er gjarnan kallaður „Franski bærinn“ í daglegur tali vegna þess að franskir sjómenn gerðu lengi út frá bænum og settu svip sinn á bæjarlífið.

Á Fáskrúðsfirði eru öll götuheiti bæði á íslensku og frönsku.

Fáskrúðsfjörður

Vegalengd frá Egilsstöðum

50 km

Dæmi um gönguleiðir

Sandfell, Vattarnes, Hafnarnes

Menningarhús/söfn

Frakkar á Íslandsmiðum

Sundlaug

Sundlaug Fáskrúðsfjarðar

Íbúafjöldi

749

Fáskrúðsfjörður er staðsettur í hjarta Austfjarða. Næstur honum til norðurs er Reyðarfjörður og skilur Vattarnes á milli með illræmdum skriðum sínum. Sunnan við er Stöðvarfjörður og skilur Gvendarnes þar á milli. Eyjan Skrúður í fjarðarmynninu er nafngjafi fjarðarins. Fáskrúðsfjörður er stundum kallaður „franski bærinn“ enda var Fáskrúðsfjörður fyrr á tíðum ein helsta bækistöð franskra sjómanna hér á landi. Frakkar reistu þar spítala, kapellu og skammt frá bænum er að finna kirkjugarð franskra sjómanna. Kauptúnið Búðir býr að mörgum fallegum gömlum húsum og snyrtilegu umhverfi. Í daglegu tali er Fáskrúðsfjörður nefndur "franski bærinn" og götuskilti eru bæði á íslensku og frönsku. Á Fáskrúðsfirði er öflugt atvinnulíf en staðurinn byggir afkomu sína að mestu á sjávarútvegi og þjónustu og hefur atvinnulíf blómgast með tilkomu ganganna og stækkun atvinnusvæðis.

Franska safnið á Fáskrúðsfirði

Afþreying

Heimamenn eru stoltir af tengingu sinni við Frakkland og hafa þeir hlúð að þessum menningararfi sínum. Frakkar á Íslandsmiðum er einstaklega metnaðarfullt safn veitir glögga innsýn í líf frönsku sjómannanna og starfsemi Franska spítalan. Safnið er að hluta til húsa í Læknishúsinu og Franska spítalanum en aðallega undirgöngum sem tengja húsin tvö saman. Á Fáskrúðsfirði hafa alls fimm frönsk hús verið gerð upp á vegum Minjaverndar en auk spítalans og Læknishússins eru það Sjúkraskýlið, Litla kapellan og Líkhúsið. Rétt utan við þéttbýlið er Franski grafreiturinn en þar er minnisvarði með nöfnum 49 franskra og belgískra sjómanna sem létu lífið á Íslansmiðum. Bæjarhátíðin Franskir dagar er haldin síðustu helgina í júlí ár hvert.

Fallegur dagur í Fáskrúðsfirði

Í öðru gömlu húsi, Wathneshúsi, er Norðurljósahúsið. Þar er boðið upp á stórbrotna sýningu um litadýrð norðurljósanna. Einnig er skemmtilegt að ganga um þorpið og skoða fallegar styttur og minnisvarða sem eru staðsettir víðs vegar um bæinn.

Skemmtilegar gönguleiðir eru víða í Fáskrúðsfirði. Þar má nefna Vattarnesið en þaðan er gott útsýni yfir í Skrúð, og sunnan megin í firðinum er hægt að ganga á Sandfell sem er glæsilegt og sérstætt líparítfjall. Utarlega í firðinum sunnanverðum er Hafnarnes, lítið þorp sem fór í eyði upp úr 1970. Þar má enn sjá gömul hús og ýmsar minjar sem skemmtilegt er að rölta um og skoða.

Á Fáskrúðsfirði er hægt að fara í golf á Golfvellinum Nesi og í sund í sundlaug Fáskrúðsfjarðar.

Albert Eiríksson

Einn af mínum uppáhaldsstöðum er Franski grafreiturinn á Fáskrúðsfirði. Þúsundir franskra sjómanna létust við Ísland og aðeins fáir hvíla í vígðri mold. Það er áhrifaríkt að ganga um garðinn og velta fyrir sér lífi sjómannanna sem stunduðu sjóinn hér við land í marga mánuði ár hvert fjarri ástvinum og fósturjörðinni. Fáskrúðsfjörður var ein aðalbækistöð franskra sjómanna í aldalangri sjósókn þeirra til Íslands og hvergi á Íslandi eru álíka minjar og þar. 

Albert Eiríksson, matreiðslumaður // @alberteldar 

Önnur Bæjarfélög