Uppfærist á 60 mínútna fresti

Skemmtilegt um Fáskrúðsfjörð

Fáskrúðsfjörður er gjarnan kallaður „Franski bærinn“ í daglegu tali vegna þess að franskir sjómenn gerðu lengi út frá bænum og settu svip sinn á bæjarlífið.

Á Fáskrúðsfirði eru öll götuheiti bæði á íslensku og frönsku.

Fáskrúðsfjörður

Vegalengd frá Egilsstöðum

50 km

Dæmi um gönguleiðir

Sandfell, Vattarnes, Hafnarnes

Menningarhús/söfn

Frakkar á Íslandsmiðum

Sundlaug

Sundlaug Fáskrúðsfjarðar

Íbúafjöldi

749

Fáskrúðsfjörður kemur mörgum á óvart með framandi yfirbragði en fjörðurinn býr yfir sterkum sögulegum tengslum við Frakkland sem enn í dag eru áberandi í bænum. Til dæmis bera allar götur í bæjarins bæði íslenskt og franskt nafn.

Franska safnið á Fáskrúðsfirði

Afþreying

Fáskrúðsfjörður varð löggildur verslunarstaður árið 1880, og frá seinni hluta 19. aldar fram til 1935 var þar aðalmiðstöð franskra sjómanna sem stunduðu veiðar við austurströnd Íslands. Bærinn er vel þekktur fyrir þessa frönsku arfleifð og sterk tenging er við vinbæ Fáskrúðsfjarðar í norður Frakklandi, Gravelines (þaðan komu flestir sjómennirnir sem veiddu við Ísland). Rétt fyrir utan bæinn er grafreitur franskra og belgískra sjómanna sem létust við Íslandsstrendur. Miðpunktur bæjarins er Franski spítalinn sem byggður var árið 1903. Hann hefur nú öðlast nýtt hlutverk sem hótel og veitingastaður, auk þess sem húsið hýsir hluta safnsins Frakkar á Íslandsmiðum. Safnið er með þeim flottari á Íslandi en það veitir einstaka upplifun og innsýn í líf erlendra sjómanna sem stunduðu veiðar við Ísland.

Fallegur dagur í Fáskrúðsfirði

Jarðgöng tengja Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð, en lengri leiðin, vegur 955 sem liggur með ströndinni, er einstaklega falleg og hana er skemmtilegt að keyra á góðum degi. Eyjan Skrúður er staðsett undan strönd fjarðarins. Henni tengjast fjölmargar þjóðsögur auk þess sem eyjan er þekkt fyrir fjölskrúðugt fuglalíf, en þar er sérstaklega mikið um lunda og súlur. Umhverfis eyjuna eru háir klettar svo það þarf vænan skammt af hugrekki til að heimsækja hana en í klettabeltinu er hellir þar sem sjómenn áttu það til að leita skjóls í óveðri.

Tillögur

Ganga – ef orkan er í hámarki skaltu skella þér á Sandfellið, 743 metra hátt líparítfjall sem stendur sunnan megin í firðinum. Ef metnaðurinn er minni, þá er líka skemmtilegt að rölta um bæinn og skoða frönsk tengsl í byggingum, götunöfnum og minjum.

Bragð – finndu frönsk áhrif í matargerðinni á veitingastaðnum í Franska spítalanum, og njóttu mikilfenglegs útsýnis á meðan.

Bíltúr – veldu lengri leiðina, um veg 955 í stað ganganna, en þar er rosalega fallegt útsýni.

Albert Eiríksson

Einn af mínum uppáhaldsstöðum er Franski grafreiturinn á Fáskrúðsfirði. Þúsundir franskra sjómanna létust við Ísland og aðeins fáir hvíla í vígðri mold. Það er áhrifaríkt að ganga um garðinn og velta fyrir sér lífi sjómannanna sem stunduðu sjóinn hér við land í marga mánuði ár hvert fjarri ástvinum og fósturjörðinni. Fáskrúðsfjörður var ein aðalbækistöð franskra sjómanna í aldalangri sjósókn þeirra til Íslands og hvergi á Íslandi eru álíka minjar og þar. 

Albert Eiríksson, matreiðslumaður // @alberteldar 

Önnur Bæjarfélög