Uppfærist á 60 mínútna fresti

Fáskrúðsfjörður kemur mörgum á óvart með framandi yfirbragði en fjörðurinn býr yfir sterkum sögulegum tengslum við Frakkland sem enn í dag eru áberandi í bænum. Fáskrúðsfjörður varð löggiltur verslunarstaður 1880 og frá seinni hluta 19. aldar, fram til ársins 1935 var þar aðalmiðstöð franskra sjómanna sem stunduðu veiðar við austurströnd landsins. Miðpunktur bæjarins er franski spítalinn sem var fluttur frá Hafnarnesi og endurbyggður sem hótel og veitingastaður. Auk þess er þar að finna Franska safnið sem veitir einstaka upplifun og sýn í líf frönsku sjómannanna.

Fáskrúðsfjörður

Íbúafjöldi:

um 800

Póstnúmer:

750

Sveitarfélag:

Fjarðabyggð

Í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar eru nú um 100 nemendur og í Leikskólanum Kærabæ tæplega 40 nemendur. Auk þess er þar rekinn Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar- og Stöðvarfjarðar og þjónustar hann börnin á Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og á Breiðdalsvík.

Smábátahöfnin á Fáskrúðsfirði

Atvinna og samfélag

Atvinnulíf byggist að mestu á sjávarútvegi og vinnslu sjávarafurða, auk smærri fyrirtækja í iðnaði og verslun, en alla helstu þjónustu er að finna á Fáskrúðsfirði, eins og t.d. heilsugæslu. Almenningssamgöngur eru góðar.

Fáskrúðsfjörður tilheyrir Fjarðabyggð og eru samgöngur greiðar í allar áttir og gegna Fáskrúðsfjarðargöng þar lykilhlutverki. Gamli vegurinn um Vattarnesskriður er þó enn til staðar og er gaman að keyra þangað á góðviðrisdögum og komast í nálægð við eyna Skrúð, sem fjörðurinn dregur nafn sitt af. Þar er mjög fjölskrúðugt fuglalíf, aðallega lundi og súlur.

Franski grafreiturinn

Verslun og þjónusta

Í Fáskrúðsfirði má finna, auk Franska safnsins, Norðurljósasafn og handverksverslun.  Auk þess eru þar nokkrir veitingastaðir, sumir opnir allt árið um kring.  Gisting er í boði í Franska spítalanum yfir sumarið.

Fáskrúðsfjörður

Félagasamtök

Mörg virk félagasamtök og sjálfboðaliðasamtök eru á Fáskrúðsfirði;

  • UMF Leiknir
  • Björgunarsveit
  • Kvenfélag
  • Rauði krossinn
  • Foreldrafélag
  • Félag eldri borgara
  • Hestamannafélag

Önnur Bæjarfélög