Uppfærist á 60 mínútna fresti

Neskaupstaður er sá þéttbýliskjarni sem stendur austast á Íslandi.  Bærinn stendur á myndrænum stað við rætur himinhárra, fagurra fjalla. Fjörðurinn og fjöllin sem umlykja hann bjóða óteljandi möguleika til afþreyingar, til dæmis fjölbreyttar gönguleiðir og hestaferðir. Árið 1895 var löggiltur verslunarstaður á Nesi í Norðfirði en þá var hafin þar þorpsmyndun.  Ástæður þéttbýlisþróunarinnar eru mjög ljósar, því um 1870 hófst saltfiskverkun í miklum mæli og við það efldist útgerð, en Norðfjörður liggur mjög vel við gjöfulum fiskimiðum.

Neskaupstaður

Íbúafjöldi:

um 1530

Póstnúmer:

740

Sveitarfélag:

Fjarðabyggð

Norðfjörður er í dag fjölmennasti byggðarkjarninn í Fjarðabyggð en íbúar eru um 1.530. Í grunnskólanum, Nesskóla eru rúmlega 200 nemendur og í leikskólanum um 80. Í Neskaupstað má einnig finna Verkmenntaskóla Austurlands, en þar er lögð áhersla á verknám, en auk þess greinar eins og uppeldisbraut, sjúkraliðanám, starfsbraut og fiskeldisbraut.

Atvinna og samfélag

Sjávarútvegur, fiskvinnsla og tengd þjónusta er aðalatvinnuvegur íbúa í Neskaupstað og þar er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Síldarvinnslan h/f,  sem rekur eitt stærsta og fullkomnasta fiskiðjuver í Evrópu, þar sem uppsjávarfiskur er unnin til manneldis. Þar er einnig Umdæmissjúkrahús Austurlands, sem er stór og fjölmennur vinnustaður. Þjónustustig bæjarins er gott, þar eru m.a. góðir veitingastaðir og hótel og öll almenn þjónusta. Þá er nokkur landbúnaður í Norðfjarðarsveit.

Neskaupstaður komst fyrst í vegasamband við aðra þéttbýliskjarna árið 1949, með veginum um Oddskarð sem þó var ekki fær nema hluta úr ári.  Með tilkomu Norðfjarðarganga 2017 komst Neskaupstaður loksins í öruggt vegasamband við Eskifjörð.

Verslun og þjónusta

Neskaupstaður er þekktur fyrir ýmislegt m.a. þungarokkshátíðina Eistnaflug og Safnahúsið en þar má finna þrjú söfn undir einu þaki; Náttúrugripasafn, Sjóminja- og smiðjusafn Jósafats Hinrikssonar og Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar.

Eitt af því sem er sérstaklega heillandi við Neskaupstað er að þar hefur gömlum bryggjum verið haldið við og á sumrin getur verið mjög líflegt við sjávarsíðuna í bænum. Þaðan er hægt að fara í bátsferðir en það er magnað að sjá landslagið í Norðfirði, þ.m.t. Rauðubjörg, af sjó og stundum sjást hvalir. Á landi er skemmtilegt að keyra í gegnum þorpið, eins langt í austur og hægt er, til þess að skoða fólkvanginn sem er fyrir utan bæinn. Þar eru fjölmargar gönguleiðir og fjölskrúðugt fuglalíf undir bröttum hlíðum Nípunnar, auk Páskahellis sem er í fjörunni.

Félagasamtök

Félagasamtök og sjálfboðaliðasamtök í Neskaupstað

 • Boltafélag Norðfjarðar
 • Badmintonhópur
 • Sjónes – stjóstangveiðifélag
 • Körfuknattleiksfélag Fjarðabyggðar
 • Björgunarsveitin Gerpir
 • Kvenfélagið Nanna
 • AA samtök
 • Foreldrafélag Eyrarvalla (leikskóli)
 • Foreldrafélag Nesskóla (grunnskóli)
 • Foreldrafélag Verkmenntaskóla Austurlands
 • Félag eldri borgara
 • Skógræktarfélag Norðfjarðar
 • Kirkjukór
 • Blásarasveit Norðfjarðar
 • Ferðafélag Fjarðamanna
 • Hestamannafélagið Blær
 • Píluklúbburinn
 • Steininn nytjamarkaður – sjálfboðaliðastarf
 • Kajakklúbburinn Kaj
 • Sjósundshópur
 • BRJÁN – Blús og rokkklúbbur
 • Karateklúbbur
 • Lyft Aust -lyftingaklúbbur (Crossfit)
 • Hraustur – Jóga og líkamsrækt

Íþróttafélagið Þróttur

 • Blakdeild Þróttar
 • Knattspyrnudeild Þróttar
 • Skíðadeild Þróttar
 • Sunddeild Þróttar

Önnur Bæjarfélög