Uppfærist á 60 mínútna fresti

Stöðvarfjörður er eina þorpið á Austfjörðum sem þjóðvegur 1 liggur í gegnum og þar er margt áhugavert að skoða. Heimamenn stunda fiskveiðar og er ferðaþjónusta umtalsverð. Listir og handverk eru áberandi, því mikill sköpunarkraftur kraumar í Stöðvarfirði sem líklegast er innblásinn, allavega að hluta til, af stórbrotinni náttúru svæðisins.  Stöðvarfjörður er hluti af sveitarfélaginu Fjarðabyggð.

Stöðvarfjörður

Íbúafjöldi:

182

Póstnúmer:

755

Sveitarfélag:

Fjarðabyggð

Vefsíða

fjardabyggd.is

Á Stöðvarfirði er rekinn grunn- og leikskóli. Skólinn var sameinaður Breiðdalsskóla árið 2019. Eftir það er skólinn kenndur við bæði byggðarlögin og fara nemendur milli staða annan hvorn dag nema á föstudögum, en þá er kennt á sitthvorum staðnum. Á Stöðvarfirði eru um 25 börn á leik- og grunnskólaaldri. Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur er með starfsemi á Stöðvarfirði.

Smábátahöfnin

Atvinna og samfélag

Nokkur fyrirtæki eru á staðnum og má þar nefna útgerð, fiskverkun, vélaverkstæði, jóga- og heilsuþjálfara.

Í þorpinu er kirkja með frábærum hljómburði og góðu safnaðarheimili.  Dagvist aldraða er í Balaborg og þar er opið á tvisvar sinnum í viku.  Þar gefst eldri borgurum færi á að mæta og fá heitan mat í hádeginu annan daginn og kaffihlaðborð hinn daginn.  Þar er hægt að spila, vinna handavinnu og ýmislegt fleira.

Útisundlaug er á Stöðvarfirði, starfrækt á sumrin, KSÍ sparkvöllur og íþróttahús með tækjasal.

Tjaldsvæði er yst í þorpinu, nálægt Nýgræðingi sem er lítil skógrækt með göngustígum.

Steinasafn Petru

Verslun og þjónusta

Tveir veitingastaðir eru á Stöðvarfirði og er annar opinn allt árið. Þar má finna litla gjafa- og dagvöruverslun, sem selur helstu nauðsynjar fyrir gesti og gangandi.  Hægt er að kaupa gistingu þar sem finna má eitt hótel og nokkra minni gististaði í byggðarlaginu.

Á Stöðvarfirði er hraðbanki á vegum Landsbankans og boðið er upp á póstþjónustu og vöruflutninga, án þess að slík fyrirtæki séu staðsett þar. Heilsugæsla er á staðnum og þangað koma læknir og hjúkrunarfræðingur aðra hvora viku. Þar er vísir að apóteki og hægt að fá afhent lyf.

Á Stöðvarfirði er frægt steinasafn, listagallerí og byggðasafn. Á sumrin er rekinn stór handverksmarkaður þar sem handverkið er allt unnið af heimafólki. Þar er auk þess starfrækt svonefnd Sköpunarmiðstöð í gamla frystihúsinu.  Þar má finna eitt flottasta hljóðver landsins, Stúdíó Síló og þangað koma innlendir og erlendir listamenn til að skapa.

Félagasamtök

Félagasamtök og sjálfboðaliðastarf:

  • Félag eldri borgara
  • Kirkjukór, samstarf við Heydalakirkju
  • Handverksfólk
  • Ungmennafélagið Súlan
  • Rauði krossinn
  • Áhugafólk um fornleifauppgröft á Stöðvarfirði
  • Björgunarsveit

Önnur Bæjarfélög