Uppfærist á 60 mínútna fresti

Á syðsta hluta Austurlands er hinn einstaklega fallegi bær Djúpivogur en hann er hluti af alþjóðlegu tengslaneti sem kallast Cittaslow þar sem megináhersla er lögð á að auka lífsgæði fólks.  Samfélög sem taka þátt í Cittaslow hreyfingunni leggja áherslu á ósvikna framleiðslu, heilnæman mat, heillandi handverkshefðir, og umhverfisvernd í takt við gleðina sem hlýst af hæglátu og friðsælu hversdagslífi.

Djúpivogur

Íbúafjöldi:

472

Póstnúmer:

765

Sveitarfélag:

Múlaþing

Í Djúpavogsskóla, sem er samrekinn grunn- og tónlistarskóli eru nú um 90 nemendur og í Leikskólanum Bjarkatúni eru um 30 börn.

Djúpavogshöfn

Atvinna og samfélag

Fjöldi fyrirtækja er á svæðinu og má þar nefna stór og lítil fiskvinnslufyrirtæki, laxeldi auk þess sem fiskmarkaður starfar á svæðinu.  Smábátasjómenn eru fjölmargir og útgerð blómleg.  Á Djúpavogi má finna bifreiðaverkstæði, stálvinnslu, viðgerðaverkstæði, rafvirkja, trésmiði og verktaka með stórar vinnuvélar.

Landbúnaður er blómlegur og má á svæðinu finna sauðfjárbú og kúabú auk þess sem æ fleiri leggja stund á hrossarækt og fjölbreyttan búskap. Fjölmörg lítil og stór fyrirtæki starfa við ferðaþjónustu, hvoru tveggja í þéttbýlinu og í dreifbýlinu.

Fjöldi smáfyrirtækja, sérstaklega í matvælaframleiðslu hafa sprottið upp á síðustu árum auk annarra fyrirtækja.  Rakari er á svæðinu, nuddari og bókhaldsþjónusta.

Í gamla Djúpavogshreppi, sem nú tilheyrir Múlaþingi má finna fimm kirkjur sem allar eru í notkun.  Stærst þeirra er í þorpinu og þar er gott safnaðarheimili.  Á Djúpvogi er íþróttamiðstöð með íþróttasal, innisundlaug með barnalaug og heitum pottum, auk tækjasalar, gufubaðs og ljósabekkjar. Við íþróttamiðstöðina og grunnskólann er KSÍ sparkvöllur.

Á Djúpavogi er starfrækt Ungmennafélagið Neisti sem hefur haldið úti öflugu íþróttastarfi fyrir börn og ungmenni.  Fótboltavöllur er í þorpinu og þar er þjónustuhús, ærslabelgur, rólur o.fl.

Í húsinu Geysi er skrifstofa Múlaþings og þar vinna starfsmenn Múlaþings.

Eggin í Gleðivík

Verslun og þjónusta

Samkaup reka Kjörbúð á staðnum, N1 er með þjónustumiðstöð og bensíndælur.  Læknir og hjúkrunarfræðingur starfa á heilsugæslunni en þangað koma einnig ljósmóðir og tannlæknir með reglulegu millibili.  Þar er einnig vísir að apóteki og hægt að fá send lyf þangað.  Hægt er að nálgast vörur með Flytjanda á afgreiðslu fyrirtækisins, Samkaup flytur vörur í gegnum Kjörbúðina og Íslandspóstur er með afgreiðslu í Kjörbúðinni. Landsbankinn er einnig með afgreiðslu í Kjörbúðinni og þar er staðsettur hraðbanki.

Almenningssamgöngur til og frá svæðinu eru til staðar.  Rúta gengur frá Djúpavogi til Hafnar í Hornafirði nokkrum sinnum í viku í samræmi við flugáætlun frá Höfn.

Hægt er að kaupa veiðileyfi fyrir lax í Selá í Álftafirði og silungsveiði í Búlandsá og Hamarsá.

Djúpivogur og sveitirnar í kring tilheyra nú nýju sameinuðu sveitarfélagi, Múlaþingi.

Teigarhorn

Þjónusta við ferðamenn

Þjónusta við ferðamenn hefur aukist mikið á sl. árum.  Mjög fjölbreytt gistiaðstaða er í boði og gott tjaldstæði í miðju þorpinu. Fjöldi skemmtiferðaskipa heimsækir þorpið á sumrin og má oft sjá fjölda ferðamanna ganga um bæinn. Nokkur fyrirtæki bjóða upp á skipulagðar ferðir.

Nokkrir veitingastaðir eru á Djúpavogi, tveir þeirra opnir allt árið um kring og tveir yfir sumartímann.  Í Löngubúð eru þrjú söfn; Ríkarðssafn, Eysteinsstofa og vísir að byggðasafni.  Við bæinn Berufjörð má finna Nönnusafn og á Teigarhorni er náttúrvætti og fólkvangur.  Á svæðinu má einnig finna steinasafn og tvær minjagripaverslanir.

Félagasamtök

Mörg virk félagasamtök og sjálfboðaliðasamtök eru á Djúpavogi;

 • Ungmennafélagið Neisti
 • Björgunarsveitin Bára
 • Rauði Krossinn
 • Kvenfélagið Vaka
 • AA samtök
 • Foreldrafélag leikskóla
 • Foreldrafélag grunnskóla
 • Félag eldri borgara
 • Skógræktarfélag Djúpavogs
 • Kirkjukór
 • Tónlistarfélag Djúpavogs
 • Ferðafélag Djúpavogs
 • Hestamannafélagið Glampi

Önnur Bæjarfélög