Vínlaus lífsstíll: Heimspekisjall

11. April, 2024

Heimspekikaffi á Egilsstöðum 11. apríl kl. 20 í Tehúsinu, Kaupvangi 17.
Hamingjan fæst með því að sækjast eftir því sem gefur og forðast um leið það sem kvelur. Gunnar Hersveinn, Rannveig Þórhallsdóttir og Sigga Lára Sigurjónsdóttir munu eiga samtal um vínlausan lífsstíl í Tehúsinu fimmtudaginn 11. apríl kl. 20, en það að drekka áfengi aðeins of oft eða aðeins of mikið orðið hindrun og truflað alls konar markmið og fyrirætlanir í lífi og starfi. Þau munu ræða um gjafir lífsins án áfengis, níu gæfuspor, sjö reglur góðvildar og kosti þess að tileinka sér vínlausan lífsstíl.
Tilefnið er útgáfa á bókarinnar Vending – vínlaus lífsstíll eftir Gunnar Hersvein. Bókin er skrifuð fyrir fólk sem vill endurmóta líf sitt, velja sér gildi, efla kosti og dempa ókosti, þau sem vantar vendipunkt, verkfæri, kraft, samtal og lífsgildi til að stíga skrefið.
Bókin hefur fengið góðar viðtökur og hrós fyrir að ávarpa málið á yfirvegaðan, skýran og skiljanlegan hátt. „Höfundur skrifar skýran, fallegan texta. Það er auðvelt að hrífast með og skynja hvert hann er að fara með ábendingum sínum og leiðarvísum.“ (lifdununa.is).
Gunnar Hersveinn heimspekingur er höfundur metsölubókarinnar Gæfuspor – gildin í lífinu, þar sem fjallað er á skýran og gagnlegan hátt um helstu lífsgildin. Gunnar var með vinsælt og fjölsótt heimspekikaffi hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur um árabil.
Rannveig Þórhallsdóttir stofnandi Sagnabrunns, fornleifafræðingur, doktorsnemi við HÍ og nústarfandi kennari við ME og verkefnastjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi.
Sigga Lára Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur, leikskáld, þýðandi og kennari í Menntaskólanum á Egilsstöðum skrifaði bókina Of mörg orð.
Heimspekikaffið fer þannig fram að þau eiga gefandi samtal um áhrif áfengis á hug, heila, hamingju og heilsu og um fjölmarga kosti þess að lifa vínlausum lífsstíl. Þau munu svo opna fyrir samtal við gesti. Þetta verður góð kvöldstund. Bókin Vending verður seld á staðnum og fæst einnig í Húsi handanna og í Bókakaffi Hlöðum.
Öll velkomin, enginn aðgangseyrir, sjá nánar á lifsgildin.is