Ef þú horfir nógu lengi – Elín Elísabet Einarsdóttir

Gletta

10. August, 2023 - 1. September, 2023

Elín Elísabet opnar málverkasýningu í Hafnarhúsinu, Borgarfjarðarhöfn, 10. ágúst kl 17:00.
Ég var beðin um að mála mynd af álfadrottningunni í Álfaborginni. Ég er búin að vera að hugsa um það í tvö ár. Ég er vön að mála það sem ég sé – horfa stíft og mála svo. Ég hef aldrei séð álfkonuna.
Ef ég horfi nógu lengi hlýt ég að sjá hana. Ef ég sit í Álfaborginni og horfi nógu stíft, þá seytlar kannski eitthvað af henni inn í málverkin.
Ætli það sé ekki það sem ég er búin að vera að gera öll þessi ár sem ég hef vanið komur mínar á Borgarfjörð: horfa aðeins lengur og reyna að sjá hvað það er sem dregur mig hingað trekk í trekk.
Ef ég horfi nógu lengi sé ég hana kannski, eða held áfram að horfa út í hið óendanlega án þess að sjá hana nokkurn tímann. Hvort tveggja álitlegir kostir. Ég hef verið að horfa í 12 ár og er enn að sjá eitthvað nýtt: í andlitum fólks, í frásögnum þess, örnefnunum, vindáttinni, fuglunum. Í Álfaborginni.
Elín Elísabet (1992) er myndlistarmaður og teiknari. Hún ólst upp í Borgarnesi en kom fyrst á Borgarfjörð eystri árið 2011 og hefur ekki getað hætt því síðan. Hún gaf út teiknuðu myndabókina Onyfir um Borgarfjörð árið 2016 og hélt í kjölfarið sýningu í Fjarðarborg. Elín stóð ásamt Rán Flygenring fyrir lundaveldi í nafni Nýlundabúðarinnar í Borgarfjarðarhöfn sumrin 2020-21.
Opnun er 10. ágúst frá 17:00-18:30
Sýningin verður opin daglega frá 12:00-17:00 til 1. sept.
Opening 10. ágúst 17:00 – 18:30
The exhibition will be open daily from 12:00-17:00 until 1. sept.