Uppfærist á 60 mínútna fresti

Fjörðurinn hlykkjast langur og mjór á milli Bjólfs og Strandartinds. Innst í firðinum, undir skjóli fjallanna Bjólfs (1085m) og Strandartinds (1010m), lúrir bærinn. Seyðisfjarðarbær er rómaður fyrir afslappað andrúmsloft, úrval menningarviðburða, fjölbreytt samfélag og einstaka náttúrufegurð sem býður upp á ótakmarkaða útivistarmöguleika.

Miðbærinn skartar litskrúðugum timburhúsum sem eiga fáa sína líka hér á landi, enda Seyðisfjörður þekktur fyrir einstaka þyrpingu norskra húsa frá aldamótunum 1900.
Þar má finna ýmsar verslanir, einstaka matarupplifun og hægt að drekka í sig bóhem anda Seyðisfjarðar. Íbúar Seyðisfjarðar í byrjun árs eru 685.

Seyðisfjörður

Íbúafjöldi:

685

Póstnúmer:

710

Sveitarfélag:

Múlaþing

Vefsíða

sfk.is

mulathing.is

Í Seyðisfjarðarskóla eru nú um 60 nemendur og í leikskólanum eru um 30 börn. Leikskólinn tekur inn börn frá eins árs aldri. Seyðisfjarðarskóli er samrekin eining með fjölbreytta listadeild, grunnskóla og leikskóla. Starfsemin fer fram í þremur húsum.

Smábátahöfnin

Atvinna og samfélag

Síldarvinnslan rekur bæði bolfiskvinnslu og bræðslu í bænum auk togara sem landar hjá vinnslunni. Farþega- og bílferjan Norræna siglir vikulega árið um kring milli Þórshafnar í Færeyjum, Seyðisfjarðar og Hirtshalls í Danmörku. Mikil starfsemi er í kringum ferjuna og rekur Smyril-line þjónustu á Seyðisfirði þar sem bæði farþegar og fraktflutningar eru þjónustaðir. Seyðisfjarðarhöfn er ein besta höfn landsins hvað varðar dýpi og skjól. Þar er að finna eina farþega terminal landsins, tvo viðlegukanta með 7 og 10 metra dýpi og góða tollaðstöðu. Höfnin býður skemmtiferðaskip velkomin og hefur fjöldi skipakoma og farþega margfaldast síðustu ár, sumarið 2022 eru bókaðar 70 komur.

Nokkur fyrirtæki eru með útibú á Seyðisfirði, t.d. verkfræðistofa, bókhaldsþjónusta, þýðingarmiðstöð, Austurbrú, Sýslumaður Austurlands og tollstjóri.  Þá má finna hárgreiðslustofu, Sagnabrunn, Skálanes, Orteka og ýmsan smáiðnað.

Á Seyðisfirði er íþróttafélagið Huginn með öfluga starfsemi, í íþróttamiðstöðinni er að finna íþróttasal, sána, heitan pott og líkamsræktarsal auk félagsaðstöðu. Innisundlaug með sána og heitum pottum er á svæðinu, leiksvæði, ærslabelgur, sparkvöllur og útileiktæki fyrir börn.

Skrifstofa sveitarfélagsins er í gömlu símstöðinni að Hafnargötu 44, sögufrægu húsi sem Otto Wathne í daglegu tali nefndur faðir Seyðisfjarðar byggði.

Regnbogagatan og Bláa kirkjan á Seyðisfirði

Verslun og þjónusta

Í bænum er Kjörbúð sem er opin alla daga árið um kring, apótek, bensíndælur og vínbúð. Læknir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingar starfa á heilsugæslunni og tannlæknir kemur vikulega. Sérstök alzeimer deild er starfrækt af HSA í heilsugæslunni.  Í bænum eru starfræktar fjölbreyttar smá verslanir (meira yfir sumarið) og fjölbreytta flóru gististaða, er að finna í bænum.  Ýmis afþreying er í boði fyrir ferðamenn í tengslum við skemmtiferðaskipakomur, lítið rútufyrirtæki og leiðsögumenn. Þá er á Seyðisfirði stálsmiðja, sandblástur, verktakarekstur og ýmiss smáiðnaður.  Þá eru nokkrir veitingastaðir á bænum.

Tækniminjasafn Austurlands er í bænum, mikið er af stikuðum gönguleiðum innan fjarðar sem og milli fjarða og upp á tinda. Á Seyðisfirði er búsettur prestur og Seyðisfjarðarkirkja með ágætt safnaðarheimili er notuð undir allar kirkjulegar athafnir sem og tónleikaröðina Bláu kirkjuna sem fer fram á sumrin.

Fjarðará er síðsumars silungsá og hægt er að kaupa veiðileyfi á Hótel Öldu.

Myndlistarmiðstöð

Menningarlífið

Menningarlífið er mjög líflegt á Seyðisfirði, þar má finna Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi sem rekur bókabúð, gallerý, listavinnustofu og bistro. Í bænum er listasetrið „Heima“ þar sem listamenn hafa dvalið í lengri og skemmri tíma.

Fyrsti listalýðskólinn á Íslandi (LungA skólinn) er starfræktur á Seyðisfirði og hefur gert frá árinu 2013. Skólinn er alþjóðlegur og sprettur upp úr listahátíð ungs fólks, LungA sem er vikulöng alþjóðleg listahátíð sem starfrækt hefur verið frá árinu 2000. Þá má nefna aðra árlega viðburði eins og vetrar- og sólarhátíðina List í ljósi sem er útihátíð haldin í febrúar ár hvert, Smiðjuhátíðin sem er árleg hátíð hjá Tækniminjasafninu, Haustroði, tónleikaröðin Bláa kirkjan og fleiri viðburði sem laða að gesti og ferðamenn sem og gefur bænum mikið líf og sérstöðu.

Félagsheimilið Herðubreið hefur gengið í endurnýjun lífdaga og þar innanhúss er fjölbreytt dagskrá árið um kring, sem og þar stendur til að byggja upp aðstöðu fyrir nýsköpun og frumkvöðla. Þar er eina bíóið frá Akureyri í norðri til Selfoss í suðri.

Félagasamtök

Mörg virk félagasamtök eru á Seyðisfirði.

  • Íþróttafélagið Huginn
  • Björgunarsveitin Ísólfur
  • Slysavarnafélag Seyðisfjarðar
  • Rauði krossinn
  • AA samtök
  • Foreldrafélag grunn- og leikskóla
  • Skógræktarfélag Seyðisfjarðar
  • Gönguklúbbur Seyðisfjarðar
  • Bíóklúbbur Herðubíó
  • Félag eldri borgara
  • Golfklúbbur Seyðisfjarðar
  • Veiðifélag Seyðisfjarðar
  • Kirkjukór
  • Leikfélag Seyðisfjarðar

Önnur Bæjarfélög