Atvinna og samfélag
Í þorpinu má finna minjar um sögu fiskveiða og verslunar en Eskifjörður varð löggiltur verslunarstaður árið 1789. Heimsókn í Sjóminjasafn Austurlands setur söguna í samhengi og heimsókn í Randulffssjóhús veitir persónulega innsýn í svæðið. Sjóhúsið er gömul verbúð þar sem hægt er að sjá vistarverur sjómanna eins og þær voru 1890. Sjávarútvegssýningarnar og bragðið af staðbundnu sjávarfanginu á veitingastaðnum tvinnast saman og skapa einstaka stemmingu í húsinu. Á sumrin getur þú leigt bát og veiðarfæri og reynt fyrir þér við veiðar á firðinum. Sjávarútvegur og fiskvinnsla eru aðalatvinnuvegir íbúa Eskifjarðar og þar er eitt af stærri sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Eskja hf, auk þess sem vaxandi fiskeldi í firðinum er á vegum Laxa ehf.
Embætti sýslumanns Suður-Múlasýslu var flutt á Eskifjörð 1853 og í dag er Lögreglustjórinn á Austurlandi staðsettur þar.
Íbúar á Eskifirði eru um 1.100 talsins, í Grunnskóla Eskifjarðar eru um 150 nemendur og í leikskólanum um 60 nemendur. Tónlistarskóli er rekinn á Eskifirði og Reyðarfirði.