Sólstöðuferð – Nóttin er ung

Tanni Travel

18. June, 2022 - 21. June, 2022

Við göngum á nóttinni og sofum á daginn

Nótt 1
Ferðin hefst kl. 19:00 á Egilsstöðum og hópnum ekið að upphafi gönguleiðar í Stórurð.  Stórurð er ein mikilfenglegasta náttúrusmíð á Íslandi og kúrir í faðmi Dyrfjalla. Í urðinni er einstök náttúra, sléttir grasbalar, hrikalegir grjótruðningar, steinblokkir, sumar tugir metra á hæð, fagrar tjarnir og sérstakur gróður. Ganga í Stórurð er einstök upplifun.

Að morgni laugardags, við lok göngu, er hópurinn sóttur og ekið á Borgarfjörð Eystri þar sem morgunmatur bíður.  Gist á Blábjörgum í uppábúnum rúmum með sameiginlegu baði.


Dagur 1
Þegar fólk hefur sofið mestu ferðaþreytuna úr sér er tilvalið að fara í Musteri SPA og njóta fegurðar Borgarfjarðar Eystri.  Jafnvel má leigja sér hjól og hjóla út í Hafnarhólmann og skoða lundabyggðina, nú eða kíkja á KHB Brugghús, þar sem bruggaður er handverksbjór, landi og gin, ganga á Álfaborgina, skoða kirkjuna eða bara njóta mannlífsins.

Ekið til Eskifjarðar seinnipart dags og tékkað inn á Hótel Eskifjörð.

Hækkun: 450 m. 
Fjöldi km:
14 
Erfiðleikastig ferðar: 3/5 

​Nótt 2
Ekið frá Eskifirði út á Karlsskála kl. 19:00, þar sem við byrjum gönguna. Við göngum frá Karlsskála um samnefndar skriður og uppá í Valahjalla þar sem er að finna brak úr þýskri herflugvél sem fórst í Sauðatindi í maí 1940.  Þar eru einnig stórbrotin ummerki eftir mikið berghlaup úr tindinum frá árinu 2014.
Við finnum leynitjörn og njótum náttúrunnar og útsýnisins yfir að eyjunni Skrúð og yfir mynni Reyðarfjarðar.

Dagur 2
Við sofum ferðaþreytuna úr okkur á Hótel Eskifirði.  Frábær sundlaug er í bænum og gott að láta ferðaþreytuna líða úr sér og njóta fjallanna í leiðinni eða fá sér léttan gönguferð um bæinn, kíkja á Sjóminjasafnið eða í Randulffssjóhús og njóta sögunnar og veitinga þar.

Við keyrum til Egilsstaða seinnipart dags áður en við höldum á hátindinn, Snæfell.

Hækkun: 410 m. 
Fjöldi km:
 12 
Erfiðleikastig ferðar:
3/5 

Nótt 3
Við leggjum af stað frá Egilsstöðum kl. 19:00 og ökum inn Vellina og Fljótsdalinn um Fljótsdalsheiði fram hjá Snæfellsskála að upphafi gönguleiðar á ​konung íslenskra fjalla, hæsta fjall utan jökla á Íslandi, 1.833 m.y.s., Snæfell.

Aðal gönguleiðin hefst skammt innan við Snæfellsskála og er leiðin stikuð upp undir jökulhettuna. Leiðin hentar flestu fjallgöngufólki og skiptast á brattir og þægilegri kaflar. Útsýnið af toppi Snæfells er erfitt að toppa.

Dagur 3
​Á leiðinni til baka er komið við í Laugarfelli, þar sem við fáum morgunverð og dýfum okkur í dásamlegar náttúrulaugar með útsýni á fjallið sem við vorum að toppa.

Við gerum ráð fyrir að enda þessa frábæru næturferð á Egilsstöðum um kl. 11:00 að morgni dags.

​Hækkun:  1.030 m. 
Fjöldi km:  14 
Erfiðleikastig ferðar:  3/5 

 

Frekari upplýsingar er hjá Tanna travel Nóttin er ung I – TANNI TRAVEL