Atvinna og samfélag
Fjöldi fyrirtækja er á svæðinu og má þar nefna stór og lítil fiskvinnslufyrirtæki, laxeldi auk þess sem fiskmarkaður starfar á svæðinu. Smábátasjómenn eru fjölmargir og útgerð blómleg. Á Djúpavogi má finna bifreiðaverkstæði, stálvinnslu, viðgerðaverkstæði, rafvirkja, trésmiði og verktaka með stórar vinnuvélar.
Landbúnaður er blómlegur og má á svæðinu finna sauðfjárbú og kúabú auk þess sem æ fleiri leggja stund á hrossarækt og fjölbreyttan búskap. Fjölmörg lítil og stór fyrirtæki starfa við ferðaþjónustu, hvoru tveggja í þéttbýlinu og í dreifbýlinu.
Fjöldi smáfyrirtækja, sérstaklega í matvælaframleiðslu hafa sprottið upp á síðustu árum auk annarra fyrirtækja. Rakari er á svæðinu, nuddari og bókhaldsþjónusta.
Í gamla Djúpavogshreppi, sem nú tilheyrir Múlaþingi má finna fimm kirkjur sem allar eru í notkun. Stærst þeirra er í þorpinu og þar er gott safnaðarheimili. Á Djúpvogi er íþróttamiðstöð með íþróttasal, innisundlaug með barnalaug og heitum pottum, auk tækjasalar, gufubaðs og ljósabekkjar. Við íþróttamiðstöðina og grunnskólann er KSÍ sparkvöllur.
Á Djúpavogi er starfrækt Ungmennafélagið Neisti sem hefur haldið úti öflugu íþróttastarfi fyrir börn og ungmenni. Fótboltavöllur er í þorpinu og þar er þjónustuhús, ærslabelgur, rólur o.fl.
Í húsinu Geysi er skrifstofa Múlaþings og þar vinna starfsmenn Múlaþings.