Fjöllin fimm í Fjarðabyggð

15. June, 2020 - 15. September, 2020

Ferðafélag Fjarðamanna hefur komið fyrir gestabókum og stimplum á fimm fjöllum í Fjarðabyggð. Til þess að hljóta nafnbótina Fjallagarpur Fjarðamanna þarft þú að kaupa þar til gert stimpilhefti og stimpla í það nafn hvers fjalls þegar þú hefur komist á topp þess. Heftinu framvísar þú eftir að hafa sigrað öll fimm fjöllin sem hér verða talin, og færð þá í sigurlaun viðurkenningu frá félaginu og mynd af þér á heimasíðuna. Unglingar fimmtán ára og yngri fá sömu viðurkenningu eftir að hafa gengið á þrjú af fimm verðlaunafjallanna að eigin vali.

Við hvetjum til þess að börn og unglingar fari ekki á fjöll nema með fullorðnum.
Heftin kosta kr. 500 og fást á Reyðarfirði í Veiðiflugunni og Íslandspósti, í Neskaupstað fást þau í Fjarðasporti (Súnbúðinni) og Nesbæ og á Egilsstöðum í upplýsingamiðstöð ferðamanna.


Kistufell
1. Kistufell, 1239 m GPS: N 65° 03,661′ W 14° 24,906′

Best er að fara frá Áreyjum, inn Hjálpleysu inná varp (þar sem hæst er á Hjálpleysu) og gengið meðfram fjallinu uns kemur að hvilft og klettalausri skriðu þar er gengið upp.

 


Á leið á Goðaborg
2. Goðaborg, 1132 m GPS: N 65° 09,532′    W 13° 55,611′

Best er að fara upp með Tandrastaðaá í Fannardal. Neðst í Hóladal er sveigt dálítið til vinstri og gengið upp að Goðaborginni sjálfri. Á hana er auðgengt að austanverðu.

 


Svartafjall
3. Svartafjall, 1021 m GPS: N 65° 04,655′    W 13° 55,285′

Stikuð leið. Ekið er upp gamla Oddsskarðsveginn Eskifjarðarmegin uns komið er að stikum á vinstri hönd. Gangan hefst í um 600 metra hæð. Greið leið í mikið útsýni

 


Gönguleiðin á Hólmatind
4. Hólmatindur, 985 m GPS: N 65° 03,623′     W 14° 03,614′

Farið frá Sómastöðum upp með Grjótá að austan uppí Grjótárdal, síðan til hægri uppá Tindinn.

 


Hádegisfjall
5. Hádegisfjall, 809 m GPS: N 65° 00,476′    W 14° 14,062′

Farið frá munna Fáskrúðsfjarðarganga, upp með Hrútá að austan, fylgja henni upp fyrir fossa, fara þá yfir hana og stefna að Hrútaskarði. Er komið er uppundir skarðið er beygt til hægri og gengið fram á Hádegisfjallið. Gestabókin er fremst á fjallinu.