Fjallagarpur Seyðisfjarðar

15. June, 2020 - 15. September, 2020

Gönguklúbbur Seyðisfjarðar stendur á bak við verkefnið „Fjallagarpur Seyðisfjarðar“ og hefur þess vegna komið gestabókum fyrir á sjö fallegum fjallatoppum í Seyðisfirði. Á hverjum toppi er einnig að finna gatatöng, með mismunandi munstri á hverju fjalli.

Ef þú vilt hljóta nafnbótina „Fjallagarpur Seyðisfjarðar”, skaltu koma við á Upplýsingamiðstöðinni á Seyðisfirði sem er í ferjuhúsinu við Ferjuleiru 1 og fá afhent klippikort sem á eru letruð nöfn fjallanna sjö. Þegar þú ert komin á topp viðkomandi fjalls gatar þú með gatatönginni í viðeigandi reit á kortinu. Kortinu er síðan framvísað á Upplýsingamiðstöðinni, þegar þú hefur klifið fjöllin sjö. Sem sigurlaun færð þú afhent viðurkenningarskjal, þar sem afrekið verður staðfest. Jafnframt mun nafn þitt verða skráð í “Fjallagarpaskrá” á heimasíðu Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Oft er um margar leiðir að ræða á fjallatoppana. Í gönguleiðalýsingu, sem hægt er að nálgast í upplýsingamiðstöðinni, er sagt lauslega frá þeim algengustu. Ekki er tekin ábyrgð á GPS punktum sem gefnir eru upp og ef villur koma í ljós vinsamlega látið vita hjá [email protected]. Hnitin eru í WGS84

Við hvetjum til þess að börn og unglingar fari ekki á fjöll nema í fylgd með fullorðnum. Auk þess er mikilvægt að fara aldrei í fjallgöngu án þess að vera búinn að kynna sér veðurspá og láta vita af ferðaáætlun.