Skógardagurinn mikli

Árleg skógarhátíð á Héraði

23. June, 2018

Skógardagurinn mikli verður haldinn í fjórtánda sinn í Hallormsstaðaskógi laugardaginn 23. júní. Þessi fjölsóttasti viðburður Fljótsdalshéraðs hefur fyrir löngu skipað sér sérstakan sess í hugum íbúa á Austurlandi og þó víðar væri leitað enda boðið upp á skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Dagskráin hefst að venju um hádegisbilið með Skógarhlaupinu þar sem hlaupin er 14 kílómetra gullfalleg leið um skógarstíga. Einnig er í boði skemmtiskokk og fjögurra kílómetra hlaup þannig að allir geta verið með. Á sviðinu í Mörkinni er boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá sem nær hámarki með Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi þar sem hreystimenni hvarvetna að af landinu spreyta sig með keðjusög og exi.

Það fer enginn svangur heim af Skógardeginum því nautabændur og sauðfjárbændur bjóða upp á heilgrillað naut og grillað lambakjöt og með því bjóða skógarbændur  ketilkaffi og steikja lummur að hætti skógarmanna.

Skógardagurinn mikli er samvinnuverkefni Skógræktarinnar, Félags skógarbænda á Austurlandi, Félög  nautgripa- og sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum og Gróðrarstöðvarinnar Barra. Aðgangseyrir er enginn og allir velkomnir.

Nánar um Skógardaginn www.skogur.is