President Bongo og Sara Riel í Havarí

3. June, 2017

Sara Riel opnar myndlistarsýninguna Marvera laugardagskvöldið 3. júní og President Bongo (Gus Gus) lætur bassakeilurnar nötra á dansflórnum langt frameftir.

SARA RIEL:

Annarsvegar opnar myndlistarkonan Sara Riel sýningu á verkum sínum. Sýningin ber heitið Marvera og inniheldur myndir úr draumkenndum heimi undir sjávarmáli.

Sara nam myndlist í Reykjavík og í Berlín og vinnur á mörkum veggjalistar og hefðbundinnar myndlistar með viðfangsefni vísinda, náttúru og samfélagslegra málefna.

Hún hefur sýnt í öllum helstu galleríum og sýningarsölum hér á landi og tekið þátt í og sett upp eigin sýningar víða um heim, í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum.

Það er gríðarlegur fengur að fá verk þessara mikilsvirtu listakonu í Havarí en sýningin stendur þangað til í september.

PRESIDENT BONGO:

Síðar um kvöldið þann 3. júní stígur á svið Stephan Stephensen betur þekktur sem President Bongo. Forsetinn er einn fremsti og afkastamesti tilraunalistamaður þjóðarinnar og vinnur á mörkum tónlistar, hönnunar, ljósmyndunnar og frjálsra sviðslita.

Stebbi er einn af stofnmeðlimum Gus Gus og lék með sveitinni um víða veröld allt frá því á tíunda áratug síðustu aldar þar til fyrir skemmstu er hann sagði skilið við sveitina til að einbeita sér að eigin verkum og sjómennsku.

Opnunin er klukkan 20.00 og tónleikarnir hefjast upp úr kl 21.00

Aðgangseyrir 3000 krónur