Nóttin er ung – næturganga í Vaðlavík

19. June, 2021 - 20. June, 2021

Ekið frá Eskifirði út á Karlsskála kl. 21:00, þar sem við byrjum gönguna fyrir Krossanes og til Vaðlavíkur. Við göngum frá Karlsskála um samnefndar skriður og uppá í Valahjalla þar sem er að finna brak úr þýskri herflugvél sem fórst í Sauðatindi í maí 1940. Þar eru einnig stórbrotin ummerki eftir mikið berghlaup úr tindinum frá árinu 2014. Gengar eru Krossanesskriður og loks Kirkjubólsskriður til Vaðlavíkur.

Vaðlavík er paradís heimamanna og vinsælt að fá sér bíltúr í þessa eyðivík, verja deginum á svörtum sandinum og njóta náttúrunnar.

Kannski muna einhverjir eftir því frækna björgunarafreki í Vaðlavík frá árinu 1994, þegar tókst að bjarga sex skipverjum af brúarþaki Goðans við afar erfiðar aðstæður með aðstoð tveggja þyrlna frá bandaríska sjóhernum.

Hópurinn sóttur að morgni að bænum Kirkjubóli.