Austurland – Make it happen again

24. March, 2017

Á Austurland: Make it happen again fögnum við hugmyndaauðgi og framkvæmdagleði. Nú vorar og við að austan bjóðum gestum HönnunarMars á frjósemishátíð austfirskra fjöllistamanna, þar sem við minnumst hugmynda fortíðarinnar og leggjum línur að verkefnum framtíðarinnar.

Hátíðin er einnig endurfundir þeirra sem muna eftir hinni töfrandi hönnunarráðstefnu Make it Happen sem haldin var á Austurlandi 2012, og tækifæri fyrir þá sem misstu af að stíga inní vítt og grípandi tengslanet MAKE. Fræjum var sáð á ráðstefnunni og hafa fjölmörg íslensk og alþjóðleg verkefni sprottið úr frjórri moldinni víða um heim. Nú fimm árum síðar hittumst við aftur til að kynna verkefni, skrásetja þróun þess skapandi samfélags sem MAKE spannar, og efnum til nýrra tengsla og nýrra verkefna.

Austfirskir hönnuðir kynna verk sín og hugmyndaauðgi, austfirskur biti verður borinn á borð, Pecha Kucha fyrirlestraröð hressir andann, og austfirsk tónlistarveisla með Prins Póló tónleikum um kvöldið. Verkefnið Áfangastaðurinn Austurland verður einnig kynnt þar sem hönnunarhugsun hefur mótað verkferlið frá upphafi.

Meðal þátttakenda eru: Garðar Eyjólfsson vöruhönnuður, Alvara fatahönnuðnarteymi, Guðmundur Úlfarsson leturhönnuður, hönnunarteymið RoshamBo, verðlaunaverkefnið Designs from Nowhere, Suzanne Arhex teiknari, Þórunn Árnadóttir vöruhönnuður, Phillippe Clause, Austurbrú og Hönnun Áfangastaðarins Austurlands, LungA skólinn á Seyðisfirði, Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði, Ólafur Ágústson matreiðslumaður, Svanur Vilbergsson gítarleikari, pönkhljómsveitin Austurvígstöðvarnar, Prins Póló, Dj Ívar Pétur og fleiri fjöllistamenn. Um sýningarstjórn sér Sigrún Halla Unnarsdóttir.

12.00 Opnun. Austfirskur matseðill í hádeginu.

13:00–18.00 Pecha Kucha og leiðsögn um sýninguna

18:30 Formleg opnun austurland.is — Áfangastaðurinn Austurland

19:00 Austfirskur kvöldverðarseðill

19:30–23:00 Austfirsk tónlistarveisla. Pönk, DJ og sjálfur Prins Póló.

Föstudagurinn 24.mars er dagur fullur af fjöri frá kl. 12:00–23:00 og svo er sýningin opin um helgina á laugardeginum frá 11:00-17:00 og sunnudaginn 13:00-17:00

Lesa nánar