Arnbjörg Kristín: Molda

30. May, 2021 - 13. June, 2021

Molda eftir Arnbjörgu Kristínu
Tankurinn, Djúpavogi
Opin alla daga.

Innsetningin Molda býður gestum í neðanjarðarveröld og veltir upp innri samræðu gagnvart þeirra eigin rótum hvar svo sem þær liggja. Sýningin er í Tanknum og er opin á daginn en rýminu er læst að næturlagi. Frítt inn.

Margir eiga þá sögu að hafa fæðst á einum stað og skotið rótum á öðrum stað í styttri eða lengri tíma. Verkið talar til mikilvægi þess að hlúa að eigin rótarkerfi.

Við erum öll ferðalangar á þessari jörð eins og Molda því kjarni hennar er mótaður úr rekavið frá Síberíu sem hefur staðið í hlöðu í Eyjafirði til þornunar í 15 ár. Molda fékk íslenskar rætur af föllnum trjám á Djúpavogi og í Eyjafirði á vordögum 2021.

Innsetningunni fylgir ljóð eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur ásamt hljóðinnsetningu kontrabassa Alexöndru Kjeld og gongs Arnbjargar sem þær spunnu saman í tengslum við verkið, rótarkerfi og jörðina.

Verkið er unnið úr efnivið úr náttúrunni og er sótt í það sem finnst í náttúrunni án þess að raska neinu.

Innsetningin er upplifun. Verkinu er ætlað að veita upplifun af djúpri jarðtengingu og sátt við eigið líf og líðan hér og nú hvaðan sem við erum upprunninn. Upplifunin er líka tækifæri til að heiðra eigin rætur hvar svo sem við erum stödd í dag.

Hjartans þakkir fær Múlaþing fyrir að styrkja innsetninguna.

Listakonan heitir Arnbjörg Kristín (1979) og er búsett á Akureyri. Hún starfar sem jógakennari og gongkennari ásamt því að fást við listsköpun og vera nemandi í HA þessi misserin.