Anna Margrét Ólafsdóttir: Spegill spegill

11. May, 2021 - 11. July, 2021

Spegill spegill eftir Önnu Margréti Ólafsdóttur
Gallerí Vesturveggur, Skaftfell Bistró, Seyðisfirði.

Opnunartími: daglega frá kl. 12:00-14:00 og 16:00-22:00.

Árið 2019 klæddist Anna Margrét Mjallhvítarkjól í hundrað daga frá 23. janúar til 3.maí. Gjörningurinn var partur af útskriftarverki Önnu Margrétar frá Listaháskóla Íslands og var innblásinn af þremur sögum; ævintýrinu um prinsessuna Mjallhvíti, myndlistarverkinu um hina raunverulegu Mjallhvíti og sögunni af upprunalegu Mjallhvíti frá Siglufirði. Í verkinu Real Snow White eftir finnsku listakonuna Pilvi Takala klæðist listakonan Mjallhvítarkjól og ætlar sér að fara í Disneygarðinn í Frakklandi en er ekki hleypt inn af öryggisvörðunum af hræðslu við að hún gæti ógnað ímynd Disney. Kristín Sölvadóttir frá Siglufirði flutti til Winnipeg 18 ára gömul árið 1930 og kynntist þar Charles Thorson eða Cartoon Charlie, Vestur-Íslendingi og myndasöguteiknara. Eftir að leiðir þeirra skildu fékk Charlie vinnu hjá Disney og þegar hann var beðinn um að teikna Mjallhvíti fyrir fyrirhugaða teiknimynd á hann að hafa teiknað Kristínu sem prinsessuna Mjallhvíti. Nú fáum við að skyggnast betur inn í hundrað dagana, sjá Mjallhvítarkjólinn bregða fyrir í ýmsum aðstæðum og líta inn í hugarheim listamannsins þar sem hún veltir fyrir sér hvernig sjálfsímynd hennar hefur mótast í samfélagi þar sem prinsessur eru fyrirmyndir ungra stelpna.

Anna Margrét Ólafsdóttir (f.1992) útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2019. Á öðru ári stundaði hún nám við École Supérieure d’Art de La Réunion í eina önn. Eftir námið flutti hún til Helsinki þar sem hún var starfsnemi hjá finnsku listakonunni Pilvi Takala og vann að undirbúningi fyrir verk hennar á Feneyjartværingnum 2022. Eftir að hafa stundað nám við LungA Skólann haustið 2014 flutti Anna Margrét aftur á Seyðisfjörð síðasta haust þar sem hún vinnur með börnum og leggur stund á eigin listsköpun. Í verkum sínum vinnur Anna Margrét með myndbirtingar neyslusamfélagsins. Með því að umbreyta ýmsum hversdagslegum viðfangsefnum inn í listsamhengið, rannsakar hún hvernig þau koma fyrir í tilverunni okkar. Hún veltir fyrir sér hvernig nútímaeinstaklingurinn skapar ímynd sína í samhengi við tilætlanir neyslusamfélagsins og setur þær pælingar fram á írónískan og kómískan hátt.