Alheimurinn er ljóð

10. July, 2021 - 15. August, 2021

Sigurður Guðmundsson: Alheimurinn er ljóð
Afhjúpun listaverks/opnun sýningar: 10. júlí kl. 14:30/15:00
Sýningin stendur 10. júlí – 15. ágúst í Bræðslunni á Djúpavogi

 Verið velkomin á afhjúpun og opnun Sigurðar Guðmundssonar á Djúpavogi laugardaginn, 10. júlí kl.14:30/15:00.
Katrín Jakobsdóttir mun afhjúpa verkið Frelsi við Löngubúð kl. 14:30 og opna einkasýningu listamannsins í Bræðslunni með formlegri athöfn kl.15:00.

Sýning Sigurðar Guðmundssonar Alheimurinn er ljóð samanstendur af ólíkum verkum frá árunum 1969–2021. Ferill Sigurðar er fjölbreyttur og miðlarnir ólíkir en póetískur tónn hefur umvafið verk hans alla tíð, hvort sem um er að ræða ljósmyndaverk, höggmyndir, teikningar, grafíkverk eða gjörninga hans, en hann hefur einnig samið tónverk, ljóð og gefið út fjórar skáldsögur.

Sýningin er rökrétt framhald af síðustu útgáfu Sigurðar Ljóð og Ljóð sem kom út árið 2020 og var safn af ljóðum listamannsins. Verkin á sýningunni eru ljóð í sjálfu sér – líkt og titill sýningarinnar gefur til kynna – en Sigurður lítur á alheiminn sem ljóð og í samskiptum sínum við hann finnst listamanninum bæði gott og rétt að upplifa alheiminn sem ljóð (SG, Alheimur, 2019).

Sigurður Guðmundsson (f.1942) er meðal fremstu myndlistarmanna Íslendinga. Hann býr og starfar á Djúpavogi, í Reykjavík, Amsterdam og Xiamen í Kína. Sýningin Alheimurinn er ljóð fer fram í Bræðslunni á Djúpavogi og er samstarfsverkefni Múlaþings, Kínverks-evrópsku menningarmiðstöðvarinnar – CEAC og ARS LONGA með stuðningi frá Uppbyggingarsjóði Austurlands.

Sýningarstjórn: Kristín Dagmar Jóhannesdóttir í samvinnu við Þór Vigfússon og Hildi Rut Halblaub. Sýningin mun standa til 15. ágúst.