Um verkefnið

Verkefnið Matarauður Austurlands er unnið í nánu samstarfi við Matarauð Íslands. Auk þess tengist Matarauður Austurlands beint inn í áherslur Áfangastaðar Austurlands en ein af fimm megináherslum þess er matur.

TENGING ÁFANGASTAÐAR OG MATARAUÐS

Í Áfangastaðaáætluninni kemur fram að við viljum að maturinn okkar beri vott um hreinleika og beri vitni um líðandi árstíð. Þar kemur einnig fram að við berum virðingu fyrir hráefnunum okkar og sýnum þeim væntumþykju og virðingu. Matarauði Austurlands og þessari heimasíðu er ætlað að kynna framleiðendur matvöru á Austurlandi, söluaðila matvæla, veitingaðila, matarmarkaði og alla þá sem koma að mat á einhvern hátt. Sérstök áhersla er lögð á framleiðslu og nýtingu á austfirsku hráefni og að því verði gert hátt undir höfði. Mikilvægt er að segja sögu vörunnar, efla grasrótina og tryggja samstarf allra aðila.

Stefna

Gert er ráð fyrir því að vinna verkefnið áfram og nú hefur verið unnin metnaðarfull stefnumótun til næstu þriggja ára. Sú áætlun er unnin á grunni Sóknaráætlunar Austurlands, auk áfangastaðaáætlunarinnar. Í Sóknaráætlun er gert ráð fyrir þverfaglegu samstarfi og að unnið sé með sjálfbærni, umhverfisvitund og umhverfisvirðingu og eiga þessi lykilhugtök öll mjög vel við matarauðsverkefnið.

    Í þriggja ára áætlun verkefnisins er gert ráð fyrir því að:

  • Árið 2021 verði tileinkað vitundarvakningu og samtali milli aðila þannig að tryggt sé að boðleiðir styttist, samvinna aukist og að allir séu að stefna í sömu átt.
  • Árið 2022 stefnum við að því að fá fleiri í lið með okkur, þ.á.m. fræðsluaðila á svæðinu og setja lýðheilsu í forgrunninn.
  • Árið 2023 ætlum við að halda stóra ráðstefnu þar sem öllum hagsmunasamtökum, framleiðendum, söluaðilum, fulltrúum stofnana, neytendum og ýmsum sérfræðingum í mat og matvælaframleiðslu verður safnað saman og austfirsku hráefni gert hátt undir höfði.
  • Árið 2023 verði einnig hafin vinna við stefnumótun til næstu þriggja ára.

Tilgangur

Tilgangur Matarauðs Austurlands er að tryggja sjálfbærni í matvælaframleiðslu og að auka sjálfbærnivitund og bæta lífsstíl okkar. Þá er mikilvægt að við hlúum að auðlindum okkar og tryggjum sjálfbæra nýtingu þeirra. Við viljum tengja saman ferðaþjónustu, menningu og matarmenningu og hlúa að því sem gerir okkur sérstök og vera stolt af því sem Austurland hefur uppá að bjóða. Markmið okkar er því að Austurland verði eftirsóttur staður til að búa á og heimsækja þegar kemur að því að upplifa og borða góðan, hollan og fjölbreyttan mat úr héraði.

Verkefnið er styrkt af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Sóknaráætlun Austurlands.