
Bræðslan
Tónlistarhátíðin Bræðslan er haldin á Borgarfirði eystri í gamalli síldarbræðslu sem hentar, ótrúlegt en satt, frábærlega fyrir tónleikahald. Hátíðin er haldin í lok júlí.
Bræðslan er tónlistarhátíð sem leggur áherslu á fagmannlega umgjörð og metnaðarfulla dagskrá, en umfram allt að efla menningarlíf á Borgarfirði og Austurlandi. Bræðslutónleikarnir sjálfir fara ætíð fram á laugardagskvöldinu en dagana á undan eru fjölbreyttir Off-Venue tónleikar í Fjarðarborg, í Álfacafé og víðsvegar um þorpið.
Borgarfjörður eystri er án vafa eitt fallegasta byggðarlag landsins, með alla helstu þjónustu fyrir tónleikagesti.