Tækniminjasafn Austurlands

Athugið að safnið er ekki opið um þessar mundir og óljóst hvenær það verður opnað að nýju. Safnið varð fyrir stórri aurskriðu 18. desember 2020 en unnið að björgun muna og enduruppbyggingu safnsins.

Tækniminjasafn Austurlands fjallar um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag.  Sýndir eru munir, minjar, hús, myndir, verkferlar og fleira. Safnið er einnig byggðasafn Seyðfirðinga.

Vegna sérhæfingar safnsins sem minjasafns er fjallar um nútímavæðingu þjóðarinnar er mikið um óvenjulegar vélar og búnað og aðrar menningarminjar sem ekki eru til sýnis í mörgum öðrum söfnum landsins. Tækniminjasafnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi.

Haldin eru námskeið og sýningar auk þess sem stundaðar er rannsóknir og kennsla, auk þess sem safnið tekur þátt í margvíslegu menningarstarfi og samstafsverkefnum.  Sýningar eru lifandi og leitast við að endurvekja andrúm tímans sem fjallað er um. Safnasvæðið er jafnframt tilvalið útisvistarsvæði fyrir gönguferðir og samveru.  Lítil verslun er á safninu þar sem hægt er að fá bækur og minjagripi.

Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar (1907)

Meðal menningarbygginga sem Tækniminjasafnið varðveitir og hefur umsjón með er Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar sem síðar varð Vélsmiðja Seyðisfjarðar.  Vjelasmiðjan var stofnuð 1907 og varð brátt öflugt fyrirtæki á landsvísu. Árið 1918 var hún stækkuð til muna og bættist þá við málmbræðsla þar sem framleidd voru m.a línuspil og alls kyns varahlutir í bátavélar. Vélsmiðja Seyðisfjarðar hóf stálskipasmíði árið 1967, en starfsemi fyrirtækisins lagðist af 1993.  Elsta húsasamstæða Vjelasmiðjunnar er nú hluti af fastasýningum safnsins.  Auk þess er húsnæðið notað sem kennsluaðstaða fyrir ýmis handverksnámskeið.

Gamla símstöðin (1894)

Gamla símstöðin, öðru nafni Wathneshús var upprunalega reist árið 1894 sem íbúðarhús norska athafnamannsins Ottó Wathne. Í tengslum við lagningu sæstrengsins frá meginlandinu til Íslands keypti Mikla norræna ritsímafélagið húsið og opnaði fyrstu ritsímastöð landsins 25. ágúst 1906. Landstjórnin eignaðist húsið 1926 og Póst og símamálastofnun gáfu Seyðisfjarðarkaupstað það undir safn 1973. Tækniminjasafnið er með sýningar á efri hæð.

Netsýningar

Þegar covid-19 heimsfaraldurinn setti samfélagið allt á hliðina, ekki síst menningarlíf, kom Tækniminjasafnið til móts við þá sem ekki komust á safnið með því að búa til tvær netsýningar í samstarfi við Google. Önnur sýningin ber titilinn „Drengurinn frá Djúpavogi“ og segir sögu ungs manns sem fæddist í mikilli fátækt en varð seinna frumlegur athafnamaður sem kynnti margar tækninýjungar fyrir íbúum Austurlands. Hin sýningin kallast „Strik og punktar“ en hún segir frá því hvernig síminn færði Ísland inn í nútímann.