Minjasafnið á Bustarfelli

Á hinu forna höfuðbóli Bustarfelli í Vopnafirði, sem hefur verið í sjálfsábúð sömu ættar frá 1532, stendur einn stærsti og best varðveitti torfbær landsins og hýsir hann Minjasafnið að Bustarfelli.

Bærinn er að stofni til mjög gamall, jafnvel að hluta til frá því hann var endurbyggður eftir bæjarbruna 1770, en í honum var búið til ársins 1966 og spannar hann því tveggja alda sögu búskapar- og lifnaðarhátta.

Árið 1943 seldi Methúsalem Methúsalemsson, bóndi á Bustarfelli, ríkinu bæinn með því skilyrði að hann yrði byggður upp og varðveittur um ókomin ár og hefur hann síðan verið í umsjá Þjóðminjasafnsins. Fyrst um sinn var safnið einkasafn, en árið 1982 afhenti Elín Methúsalemsdóttir, dóttir Methúsalems og síðasti ábúandi í gamla bænum, Vopnfirðingum safnkostinn til varðveislu og varð safnið þá að sjálfseignarstofnun.

Sérstaða Bustarfellsbæjarins er ekki síst hve lengi var búið í honum og fastasýning safnsins endurspeglar bæinn sem heimili fjölskyldunnar, sem flutti þaðan árið 1966. Auk þess eru að jafnaði tvær til þrjár sérsýningar í safninu.

Safnið er opið yfir sumarið og ofan við gamla bæinn stendur kaffihúsið Hjáleigan, þar sem má gæða sér á kaffi og kræsingum. Á staðnum er einnig lítið dýragerði með húsdýrum, sem gleðja jafnan stóra sem smáa.