Minjasafn Austurlands

Minjasafn Austurlands er til húsa í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Safnið á sér langa sögu en það var formlega stofnað árið 1943.

Að safninu standa sveitarfélögin Múlaþing og Fljótsdalshreppur. Safnið er viðurkennt safn samkvæmt skilgreiningu Safnaráðs og starfar samkvæmt safnalögum, safnastefnu á sviði menningarminja og siðareglum ICOM. Hlutverk safnsins er í stuttu máli að safna, varðveita og miðla efnislegum menningararfi Austurlands. Á safninu eru varðveittir um 12.000 gripir sem skráðir eru í menningarsögulega gagnasafnið Sarp.

Sýningar og miðlun

Á safninu eru tvær grunnsýningar. Annars vegar sýningin Hreindýrin á Austurlandi þar sem fjallað er um þessi einkennisdýr Austurlands á fjölbreyttan hátt og hins vegar sýningin Sjálfbær eining þar sem til sýnis eru ýmsir gripir sem tilheyra sögu gamla sveitasamfélagsins á Austurlandi eins og það var fram undir miðja 20. öld. Meðal sýningargripa er baðstofa frá bænum Brekku í Hróarstungu.

Auk grunnsýninganna eru settar upp fjölbreyttar tímabundnar sýningar, bæði með munum úr safnkosti safnsins en einnig margvíslegar gestasýningar. Safnið nýtir einnig vefinn til að miðla menningararfinum, m.a. með vefsýningum og umfjöllunum um einstaka gripi úr safnkostinum. Þá er leitast við að bjóða uppá fjölbreytta viðburði fyrir börn og fullorðna.

Safnfræðsla

Á Minjasafni Austurlands er lögð rík áhersla á safnfræðslu og þjónustu við börn. Á hverju ári heimsækir fjöldi nemenda af öllum skólastigum safnið í skipulögðum skólaheimsóknum. Þá tekur safnið virkan þátt í BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, með því að bjóða upp á smiðjur og viðburði, bæði fyrir gunnskólanema og almenning. Á safninu er einnig sérstakt krakkahorn þar sem hreindýrið Hreindís ræður ríkjum auk þess sem yngri kynslóðin getur fylgt leiðsögn Hreindísar um grunnsýningar safnsins.

Kjarvalshvammur

Minjasafnhefur umsjón með sumarhúsi Jóhannesar Sveinssonar Kjarval sem stendur í svonefndum Kjarvalshvammi í Hjaltastaðaþinghá. Húsið byggði Kjarval í upphafi sjötta áratugs síðustu aldar og dvaldi þar mörg sumur við listsköpun. Aðstaðan sem Kjarval bjó sér í hvamminum er mikilvægur minnisvarði um tengsl hans við Austurland og ást hans á fjórðungnum. Hvammurinn er vinsæll áningarstaður ferðamanna en þar er upplýsingaskilti og hægt að ganga um og virða fyrir sér útsýnið sem varð innblástur að mörgum verka Kjarvals.