Matarmót Matarauðs Austurlands 2024

Matarmót Matarauðs Austurlands verður haldið í Sláturhúsinu á Egilsstöðum laugardaginn 9. nóvember.

Matarmótið í ár er með veglegasta móti og fáum við marga góða og áhugaverða gesti.

Michael Miv Pedersen og Sigrún Sól Agnarsdóttir.

Michael Pedersen og Sigrún Sól Agnarsdóttir. koma frá Danmörku og ætla að elda fyrir alla atvinnu- og byggðaþróunarfulltrúa landsins, sem verða í heimsókn á Austurlandi og útbúa laxarétti á matarmótinu.

Michael Miv Pedersen er danskur matreiðslumaður, veitingamaður og frumkvöðull sem hefur náð umtalsverðum frama í matreiðslu í heimalandinu.

Hann var m.a. valinn matreiðslumaður ársins í Danmörku árið 2013 og síðan þá hefur hann opnað nokkra veitingastaði sem allir hafa notið velgengni fyrir hágæða og skapandi nálgun í matreiðslu, hver á sinn hátt.

Í dag stýrir hann veitingastaðnum Tabu í Álaborg sem hefur hlotið Michelin viðurkenningu. Þar hefur hann skapað einstaka matarupplifun með áherslu á hráefni frá Norður-Jótlandi og árstíðabundið hráefni. Miv er þekktur fyrir djúpan skilning á bragðsamsetningum og næmt auga fyrir smáatriðum. Sem matreiðslumaður og frumkvöðull heldur hann áfram að móta og þróa norræna matreiðslu bæði með nýsköpun og sterkri tengingu við staðbundna matarmenningu

Michael ætlar að vera með okkur í matarmótsvikunni, hann mun m.a. elda fyrir alla atvinnu- og byggðaþróunarfulltrúa landsins, sem verða í heimsókn á Austurlandi, auk þess sem hann mun bjóða upp á smakk úr eldislaxi á matarmótinu í samstarfi við Kaldvík og Búlandstind.

Sigrún Sól Agnarsdóttir er frá Íslandi, ættuð af Héraðinu, en er búsett á Norður Jótlandi. Sigrún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á kokkastarfinu og er nú nemi hjá danska kokkinum Michael Pedersen, hún hefur sérstakan áhugaa á ólíkri matarmenningu mismunandi þjóða. Sigrún klárar hvoru tveggja menntaskólann og kokkanámið næsta vor og þá stefnir hún heim til Íslands þar sem hún hyggst kynnast betur íslenskri matarmenningu. Samhliða náminu í Danmörku hefur Sigrún komið oft til Íslands og m.a. unnið með Kára á Nielsen Restaurant. Þá hefur Sigrún mikinn áhuga á kokkakeppnum og var m.a. aðstoðarmaður danskra kokka á meistarmótinu í Danmörku og var þar valið besti kokkaneminn.

Sigrún ætlar að aðstoða Michael við að elda handa atvinnu- og byggðafulltrúum og útbúa laxarétti á matarmótinu.

Matarmót Matarauðs Austurlands er styrkt af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Sóknaráætlun Austurlands.