Þú þroskar fleiri hæfileika í litlum bæjum
Sú saga er lífsseig að það sé of rólegt úti á landi. Að hver dagur líði eins, tilbreytingarlítill og snauður af ævintýrum. En allir sem til þekkja vita að hvergi er maður jafn upptekinn og í litlum bæjum þar sem hver skiptir máli.
Það er erfitt að negla niður hvernig maður titlar Hrönn Grímsdóttur. Hún fæst við svo margt að enginn einn merkimiði virðist duga til. En hún er allavega Norðfirðingur, fædd þar og uppalin, í fimmtán hundruð manna sjávarplássi, því austasta í fjórðungnum.
Eins og margir Norðfirðingar sem fæddir eru eftir 1970 gekk hún í Verkmenntaskóla Austurlands og eftir útskrift sótti hún nám í sagnfræði við Háskóla Íslands, bætti við sig kennararéttindum og svo námi í náms- og starfsráðgjöf. Eftir nokkur ár sem námsráðgjafi við Verkmenntaskólann vatt hún kvæði sínu í kross, tók „u-beygju“ eins og sagt er:
„Ég var ánægð í vinnunni,“ segir hún. „Og ég hef reyndar oft skipt um stefnu í lífinu. Er hvatvís að eðlisfari og mig langaði í einhverja breytingu. Einn daginn var ég í ræktinni á Norðfirði og allt í einu fannst mér eins og lýðheilsunám væri málið. Ég sá að þetta myndi styrkja mig í vinnunni því ég fann að krakkarnir sem ég var að vinna með voru að glíma við streitu og kvíða og þá vantaði meira en samtal við mig um sína líðan og tilfinningar. Þá vantaði ekkert síður ráðgjöf um hreyfingu og almennar lífstílsbreytingar.“
Hrönn flutti suður í tvö ár. Tók með sér fjölskylduna og hóf meistaranám í lýðheilsuvísindum. Samhliða stundaði hún jóga en gekk skrefi lengra á meðan dvöl hennar stóð og náði sér í jógakennararéttindi.
Þegar hún sneri aftur til Norðfjarðar tók líf hennar aðra stefnu: „Ég fór að vinna sjálfstætt og það er alveg magnað hversu góð áhrif það hefur á frjóa hugsun að vinna sjálfstætt. Maður skilur allt í einu að allt er hægt. Allt í einu eru allir vegir færir og það er ekkert sem stoppar þig. Ég fékk ótal hugmyndir, sumar gengu upp en aðrar ekki sem fannst ekki skipta neinu máli.“
Eftirspurnin eftir jógakennslu reyndist meiri en hún gerði sér grein fyrir en yfir sextíu Norðfirðingar byrjuðu strax í tímum og fljótlega þurfti Hrönn að ráða til sín kennara til að anna eftirspurninni. Í dag eru um sjötíu með árskort hjá fyrirtækinu hennar sem ber heitið Hraustur og þar er boðið upp á jógakennslu og líkamsrækt. Fólk á öllum aldri nýtir sér þjónustuna sem eru engar ýkjur því Hrönn er með tíma í fjölskyldujóga þar sem yngstu nemendur eru tveggja ára gamlir og þeir elstu á áttræðisaldri. Fram til þessa eru konur í umtalsverðum meirihluta en körlunum fjölgar stöðugt.“
„Hvar sem þú býrð virðist streita vera aðalvandamálið sem herjar á fólk,“ segir Hrönn. „Það breytir engu hvort þú býrð í smábæ eða stórborg. Áreitið í litlu samfélögunum er bara öðruvísi. Þeir sem eru á annað borð virkir þurfa að deila orku sinni víða og taka þátt í allskyns verkefnum sem það þyrfti ekki að gera í stærri samfélögum. Í litlum bæjum sér maður venjulegt fólk upp á sviði í félagsheimilinu að leika og syngja jafnvel þótt það hafi reynslu af hvorugu. Fólk stígur út í verkefni án þess að framkvæma þau fullkomlega en á sama tíma er það að þroska hæfileika sem það taldi sig ekki búa yfir. Ég hefði trúlega aldrei lært að verða jógakennari byggi ég í Reykjavík. Þar er fullt til frábærum jógakennurum og maður finnur ekki þörfina, hvorki hjá samfélaginu né sjálfum sér, að leggja slíkt nám á sig. Þegar enginn er fyrir á staðnum sem hefur kunnáttuna fær maður sjálfstraustið til að stíga fram.
En fólk þarf að „múltítaska“ í litlum bæjum og því fylgir allskonar áreiti. Jógað er ein leið af mörkum til að finna kyrrðina í huganum og það, að mínum dómi, er uppspretta gleði, orku og einbeitingar,“ segir Hrönn og er ekki nokkrum vafa um gildi jóga:
„Þú ert að búa til pláss fyrir vellíðunina og þú lærðir að stýra athyglinni,“ útskýrir hún og nefnir dæmi: „Í einni æfingu ertu bara að einbeita sér að því að hreyfa tærnar. Þetta kann að virka sem eitthvað ómerkilegt eða smávægilegt en samt er athyglin þar. Hún er ekki á einhverjum verk einhvers staðar annars í líkamanum eða á verkefnum eða hversdagslegum vandamálum. Í jóganu lærir þú að kyrra hugann og stýra athyglinni, leiknin yfirfærist svo smátt og smátt á aðra þætti í lífinu ef þú leyfir því að gerast: Til dæmis þegar þú ert að tala við barnið þitt ertu ekki að gera neitt annað á meðan. Þú ert á staðnum, hér og nú, og hvernig sem á því stendur stuðlar þetta að hamingju.
Hægt og rólega verður maður öruggari í eigin skinni. Maður finnur sátt og verður ánægðari með hvern dag og svo ég tali fyrir sjálfa mig: Ég finn að hlutirnir eru í mínum höndum. Það er enginn annar að stýra.“
Myndatexti: Hrönn ásamt nemendum á fótboltavellinum í Neskaupstað: „Á sumrin höfum við kennsluna utandyra. Við notum umhverfið í bænum til iðkunar hvort sem það er fjaran, bæjarbryggjan, brekkurnar, snjóflóðavarnargarðurin eða fótboltavöllurinn.“
Texti: Jón Knútur Ásmundsson.
Myndir: Rhombie Sandoval.