Stúlknaliðið á Vopnafirði dreymir um fótbolta

Það er þriðjudags síðdegi í íþróttasalnum í firði á norðaustur horni Íslands. Úti hótar enn ein vetrarlægðin að loka vegum. Inni í salnum er fótboltaæfing rétt að hefjast.

Kamilla, 15 ára, miðjumaður

„Mig hefur dreymt um fótbolta síðan ég byrjaði 5 ára gömul, og nú dreymir mig um að spila bæði á Íslandi og erlendis. Ég þarf bráðum að flytja til þess að fara í framhaldsskóla, líklega til Akureyrar bæði til þess að fara í skóla og spila fótbolta. Í framtíðinni langar mig að spila með landsliðinu.“

Karólína, 14 ára, framherji

„Ég elska að búa og spila fótbolta á Vopnafirði. Ég myndi vera hér áfram ef ég gæti en það er líklega ekki það besta fyrir ferilinn minn. Í staðinn dreymir mig um að flytja til Reykjavíkur og spila með Breiðablik. Ég ef lengi getað hugsað mér að vera framherji hjá þeim. Auk þess að spila með Breiðablik vonast ég til þess að spila með íslenska landsliðinu.“

Avonleigh, 15 ára, framherji og kantmaður

„Ég fæddist í Bandaríkjunum en fjölskyldan mín flutti til Bakkafjarðar þegar ég var 5 ára. Þegar ég var 11 ára fluttum við til Vopnafjarðar og á þeim tíma hafði ég aldrei spilað fótbolta svo ég byrjaði á núllpunkti fyrir 4 árum. Uppáhalds íslenski leikmaðurinn minn er Sara Björk. Hún hefur barist við meiðsli og tekist á við kvíða, sem ég tengi við. Hún veitir mér innblástur.“

Við höfum heyrt að stúlknalið Einherja á Vopnafirði eigi nokkra mjög efnilega leikmenn. Svo efnilega að þjálfarar liða í efstu deild horfa austur þegar þeir skipuleggja lið framtíðarinnar.

Í hverri viku æfir liðið saman og tekur þátt í mótum bæði á Íslandi og erlendis. Síðasta sumar kepptu þær í Gautaborg og nú í sumar taka þær þátt í Costa Blanca Cup á Spáni.

Við hittum þrjá af ungu leikmönnunum áður en æfingin byrjar. Kamilla, Karólína og Avonleigh hafa allar verið í liðinu árum saman; Kamilla og Karólína síðan þær voru 5 ára og Avonleigh síðan hún flutti til Vopnafjarðar 11 ára gömul. Við spjöllum saman um hvernig það er að spila fótbolta í þessum litla bæ á Austurlandi.

Sara Björk Gunnarsdóttir (f. 1990) er fyrirliði íslenska landsliðsins. Hún býr í Þýskalandi og spilar með VfL Wolfsburg. Hún er fyrirmynd stúlknanna enda hefur Sara lagt hart að sér til þess að komast þangað sem hún er í dag og það veitir vopnfirsku stúlkunum innblástur.

Sigurður Donys, þjálfari liðsins, er að hóa hópnum saman fyrir æfingu dagsins. Hann hefur þjálfið liðið í 10 ár og það eru sterk tengsl á milli hans og leikmannana. Viljinn til þess að spila fótbolta á þessum vindasama þriðjudegi er einarður. Meira að segja hér, í einum afskekktasta firði Austurlands, er draumurinn um að spila fótbolta með stóru erlendu liði nær en maður heldur.

Höfundur: Nanna Vibe S. Juelsbo. Greinin birtist áður í tímaritinu Think Outside the Circle, 3. tbl, vetur 2020. Kristjana Louise Friðbjarnardóttir snaraði yfir á íslensku.