Dúnævintýrið á Borgarfirði

Borgarfjörður eystri er þekktur fyrir lunda, krefjandi gönguleiðir og ótrúlegt landslag. Í nálægri framtíð gæti hann einnig orðið þekktur fyrir framleiðslu á sængum og koddum úr æðardún af svæðinu. Hugmyndin varð að raunveruleika vegna kraftmikilla frumkvöðla.

„Hugmyndin að Icelandic Down varð til haustið 2018 þegar við maðurinn minn, hann Þórir, ákváðum að heimsækja æðarfuglsbændurna Óla og Jóhönnu á Sævarenda í Loðmundarfirði. Óli og Jóhanna sýndu okkur svæðið og kynntu okkur fyrir sögu og eiginleikum íslenska æðardúnsins. Þetta var upphafið að fyrirtækinu Icelandic Down,“ útskýrir Ragna Óskarsdóttir.

Ragna, fædd og uppalin í Reykjavík, býr nú á Borgarfirði eystri þar sem hún starfar sem yfirmaður Icelandic Down, sem stofnað var af tveimur fjölskyldum. Hlutverkin eru skýr. Bændurnir Óli og Jóhanna sjá um hreiðursvæðið og tína dúninn í Loðmundarfirði. Ragna, maðurinn hennar og börnin þeirra Ástrós og Kristján hreinsa dúninn, framleiða og markaðsetja vörurnar – allt gerist það í höfuðstöðvunum þeirra, pínulitlu bláu húsi á Borgarfirði eystri.

„Samfélagið allt, sérstaklega hérna á Borgarfirði og Austurlandi öllu hefur stutt litla ævintýrið okkar og allir eru tilbúnir að rétta fram hjálparhönd. Það er frábært að vera frumkvöðull á Austurlandi!“ segir Ragna og bætir við:

„Borgarfjörður eystri er hluti af verkefni Byggðastofnunnar sem kallast Brothættar byggðir. Við fengum líka að taka þátt í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita og það fleytti okkur af stað. Auk þess fengum við styrk í gegnum Brothættar byggðir eða það sem við köllum „Betri Borgarfjörður.“

Það mætti halda að það væri áhætta fólgin í því að stofna fyrirtæki í 100 manna bæ. Auðvitað þarf ákveðið hugrekki til þess að hefja nýtt verkefni en með stuðningi samfélagsins, styrkja til verkefna á staðnum og sterkri sögu æðardúns á Íslandi sjá Ragna og teymið hennar fram á bjarta framtíð Icelandic Down.

„Íslenskir bændur hafa notað æðardún frá því að Ísland komst í byggð fyrir rúmlega 1100 árum. æðardúnn er fullkomlega sjálfbært hráefni, uppskorið í samvinnu manna og fugla. Það eru forréttindi að vinna við svona frábært verkefni.“

Lesa nánar