Fólk vill fallega náttúru og næði
„Það eru mörg tækifæri í hinum dreifðu byggðum fyrir ferðaþjónustuna,“ segir Daniel Fanselow, þróunarastjóri hjá fyrirtækinu Oodhouse, sem hannar, byggir og í sumum tilvikum rekur gistiþjónustu í smáhýsum sem staðsett eru á fáförnum slóðum þar sem ferðalangurinn fær allt það næði sem hann þarf og vill.
Oodhouse er vaxandi fyrirtæki með starfsemi í tæplega tuttugu löndum. Daniel segist vera spenntur fyrir Íslandi en fyrirtækið hafi nú þegar hafið sitt fyrsta verkefni á Suðurlandi og ætli sér að byggja fleiri hús á Íslandi. „Við erum með nokkur verkefni í gangi í norðurhluta Evrópu t.d. í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð og á næstu fimm árum erum við með áætlanir um að fara í umfangsmikla uppbyggingu á Íslandi,“ segir hann um metnaðarfullar áætlanir fyrirtækisins.
Image: Oodhouse
Oodhouse hefur áhuga á uppbyggingu á fáfarnari slóðum. „Það eru mörg tækifæri í hinum dreifðu byggðum fyrir ferðaþjónustuna. Ferðamenn eru að leita að nýjum áfangastöðum þar sem þeir geta verið meira út af fyrir sig. Þetta er þróun sem var hafin fyrir heimsfaraldurinn en eftirspurnin hefur aukist mjög síðan þá. Fólk vill fallega náttúru og næði,“ segir hann og þess vegna sé Ísland spennandi kostur:
The interior. Photo: Oodhouse
„Ekki síst Austurland því það hakar í öll boxin og þá skemmir ekki að samskiptin við fulltrúa landshlutans hafa verið einstaklega gefandi,“ segir Daniel en sl. sumar kom hann til landsins og hitti m.a. starfsmenn Austurbrúar með Maríu Hjálmarsdóttur, verkefnastjóra markaðsmála, í broddi fylkingar.
„Ég fann strax ástríðuna, orkuna og trúnna sem þið höfðuð á landshlutanum ykkar og það er forsenda þess að við náum okkar markmiðum. María og teymið hennar hafa verið mjög hjálpsöm en eftir okkar fyrsta fund var ég með fjörutíu blaðsíður af gögnum til að skoða og þetta er verulega spennandi landshluti,“ segir Daniel og er spenntur að koma að skoða aðstæður og möguleika á frekari uppbyggingu á Austurlandi.
Nánari upplýsingar
Oodhouse
Oodhouse hotels