„Austurland er í tísku“
„Austurland er í tísku. Þarna eru mörg tækifæri til uppbyggingar í ferðaþjónustu og landshlutinn hefur margt til brunns að bera sem spennandi kostur fyrir fjárfesta í leit að tækifærum,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, en hann situr í stjórn Jarðbaðanna hf. sem eru kjölfestufjárfestirinn í Vök Baths við Urriðavatn nálægt Egilsstöðum, heitar náttúrulaugar sem slógu í gegn strax og þær voru opnaðar sumarið 2019.
Það voru heimamenn á Austurlandi sem vöktu athygli Steingríms á þeim möguleika að opna baðstað við bakka Urriðavatns. Lengi var vitað um jarðhitann við Urriðavatn enda vakir í því sem áður voru notaðar til þvotta á veturna.
„Ég sat í stjórn nýsköpunarsjóðsins Tækifæri þegar til okkar leituðu nokkrir hugmyndaríkir Austfirðingar, eða þeir Ívar Ingimarsson, Hilmar Gunnlaugsson og Hafliði Hafliðason,“ segir Steingrímur. „Þeir komu með þessa hugmynd til okkar en þeim hafði ekki gengið nógu vel að finna fjárfesta. Við hlustuðum og til að gera langa sögu stutta stukkum við á tækifærið,“ segir hann en Steingrímur situr í stjórn Jarðbaðanna hf. sem er kjölfestufjárfestir í Vök Baths. Hann er auk þess forstjóri hjá Höldi sem rekur eina stærstu bílaleigu landsins.
Vök baths. Ljósmyndari: Frauki
„Það vantaði fleiri segla á Austurlandi, spennandi afþreyingu til að auka aðdráttarafl landshlutans,“ segir hann aðspurður um ástæðu þess að menn létu slag standa. „Ferðamenn þurftu ástæðu til að stoppa lengur svo þeir gætu notið alls þess sem Austurland hefur upp á að bjóða,“ útskýrir hann og bætir við:
„Við þá sem ekki höfðu trú á hugmyndinni í upphafi get ég sagt: I told you so! Vinsældir Vakar frá upphafi sýna að þetta var hárrétt mat á stöðinni. Þessa þjónustu vantaði!“
Mörg ónýtt tækifæri
„Til að fara í svona verkefni þarftu að hafa samfélagið með þér,“ segir Steingrímur. „Líkt og ég sagði kom hugmyndin frá heimamönnum en þar að auki fundum við strax frá upphafi mikinn velvilja frá samfélaginu og það skiptir fjárfesta og svona verkefni gríðarlegu máli.“
Vök Baths voru opnuð sumarið 2019 og síðan eru liðin þrjú skrýtin ár. „Þetta hefur verið mjög óvenjulegt rekstrarumhverfi og það má segja að fyrst núna sé að myndast stöðugleiki um reksturinn. Næsta ár verður fyrsta eðlilega árið,“ segir hann.
En hvaða skilaboð hefur hann til þeirra sem hafa áhuga á fjárfestingu á Austurlandi?
„Í fyrsta lagi: Austurland er í tísku. Þarna eru mörg tækifæri til uppbyggingar í ferðaþjónustu og landshlutinn hefur margt til brunns að bera sem spennandi kostur fyrir fjárfesta í leit að tækifærum. Staðan er breytt eftir heimsfaraldurinn. Ferðamenn kjósa æ oftar að ferðast á eigin vegum og vilja gjarnan heimsækja svæði sem skarta ósnortinni náttúru og eru ekki ofsetin.
Seyðisfjörður. Ljósmyndari: Þráinn Kolbeinsson
Í öðru lagi: Þarna eru mörg ónýtt tækifæri. Það vantar fleiri afþreyingarmöguleika, bæði fyir gesti og heimamenn, og það vantar gistirými á sumrin sem er vissulega raunin víða úti á landi.“
Í þriðja lagi: Velvilji heimamanna er fyrir hendi og öflugir innviðir. Sem dæmi get ég nefnt að á Austurlandi eru verkfræðistofur og verktakar sem við gátum nýtt í uppbyggingu Vakar. Sú er ekki raunin alls staðar á landsbyggðinni.“
Áhyggjur ástæðulausar
Sem fyrr segir voru hvatamennirnir að Vök búnir að leita til nokkurra fjárfesta og kynna þeim möguleikann á náttúrulaugum við Urriðavatn en sú viðleitni hafði borið takmarkaðan árangur. Steingrímur segist skilja áhyggjur manna en að þær séu ástæðulausar.
„Fjárfestarnir búa fæstir á Austurlandi og það er mannlegt að líta sér nær,“ segir hann. „Það er erfitt að fylgjast með fjárfestingunni þinni ef þú ert í Reykjavík og verkefnið hinum megin á landinu. Þess utan ertu mögulega ekki með neinar tengingar við svæðið. Það skiptir máli í uppbyggingu Vakar að það voru heimamenn sem seldu okkur hugmyndina. Þeir geta séð fullt af tækifærum á svæðinu sem fjárfestar í Reykjavík eða á Akureyri koma ekki auga á,“ segir Steingrímur.
Í þessu samhengi hvetur hann Austfirðinga að vera duglegir að kynna landshlutann út á við sem vænlegan fjárfestingakost en ekki síður að hafa trú á eigin getu til að styðja við fjárfestingu á svæðinu og draga hana til sín:
„Við hefðum ekki farið út í þetta verkefni nema vegna þess að heimamenn höfðu trú á verkefninu.“
Nánari upplýsingar
Vök baths