Góður fjárfestir hefur mikið til málanna að leggja

Það reyndist mikið heillaspor fyrir Óbyggðasetur Íslands í Fljótsdal að byggja upp fyrirtækið með þátttöku utanaðkomandi fjárfesta. Í dag er fyrirtækið eitt fárra í ferðaþjónustu á Austurlandi með rekstur allt árið. Denni Karlsson, annar stofnanda og eigandi, segir frá.

Hugmyndin að stofnun Óbyggðasetursins varð ekki til á einni nóttu. Denni hafði unnið sem kvikmyndagerðarmaður en var með annan fótinn í Fljótsdal þaðan sem hann á ættir að rekja. Hann hafði verið með hestaferðir á sumrin, meira sér til skemmtunar en nokkur annars, en svo kviknaði þessi hugmynd, að reka ferðaþjónustu þar sem óbyggðirnar væru hin eiginlega söluvara. Í dag er rekin öflug ferðaþjónusta með fjölbreyttri afþreyingu, veitingum og gistingu, á afskekktum stað lengst inn í Fljótsdal, nánar tiltekið í Norðurdal. Óbyggðasetrið er eitt fárra ferðaþjónustufyrirtækja á Austurlandi í fullum rekstri allt árið.

Þurftum utanaðkomandi fjármagn
„Í upphafi sóttum við fjármagn í ýmsa sjóði sem styrktu þróun og nýsköpun,segir Denni. „Við þróun verkefnisins og gerð viðskiptaáætlunar og sá maður ótal tækifæri. Svæðið var spennandi og ferðaþjónustan ekki orðin jafn þróog hún er núna. En til að hugmyndir gætu orðið að veruleika þá þurfti fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd. Við treystum okkur ekki til að taka risavaxin bankalán til að klára dæmið, enda hefði það örugglega verið erfitt. Þess vegna fórum við að leita eftir fjárfestum.

Feðgar Skoða stjörnurnarStjörnuskoðun. Ljósmyndari: Sigrún Júnía

Aðkoma fjárfestingasjóðs
Sú leit leiddi þau að nýstofnuðum fjárfestingasjóði, Icelandic Tourism Fund (ITF), í eigu Landsbankans, Icelandair og lífeyrissjóðanna. Sjóðurinn eignaðist svo stóran hlut í Óbyggðasetrinu árið 2015 og að mati Denna var þetta forsenda þess að hægt var að stækka og efla fyrirtækið.

„Það tók tíma að ná samningum við þá,segir Denni. „En það sem hjálpaði okkur – og þetta er algert lykilatriði fyrir þá sem eru að spá í svona hlutum – er að við vorum með vandaðar áætlanir, við lögðum mikla áherslu á að konseptið væri vel hugsað, hannað og síðast en ekki síst myndrænt. Ef maður sér þetta ekki fyrir sér sjálfur mun fjárfestirinn svo sannarlega ekki gera það heldur.

Fra sýningunni í ÓbyggðasetrinuFerðastu með leiðsögn um ævintýri óbyggðanna. Ljósmyndari: Sigrún Júnía

Við vorum einnig óhrædd við að nýta það tengslanet er við höfðum, en tengslanetið er gulls ígildi, þegar farið er í verkefni sem þetta. Bæði hvað varðar ráðgöf í fjármálum, lögfræði, byggingarmálum, ferðaþjónustu og alls kyns sérfræðiupplýsingum. Sú faglega og breiða ráðgjöf styrkti verkefnið til muna og gerði það trúverðugra gagnvart fjárfestum.

Sjóðurinn seldi sinn hlut til Artic Adventure enda átti aðkoma hans aldrei að vera nema tímabundin. Artic Adventure er eitt öflugasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins með starfsemi innanlands og erlendis. „Við fórum frá hefðbundnum fjárfesti yfir í fyrirtæki sem hafði fram að færa öfluga markaðssetningu og umfangsmikla ferðaþjónustu um allt land og víðar,segir Denni. Þetta var líka spor í rétta átt að mati hans.

Hægt að minnka óvissu
Denni segist skilja að sumir séu á varðbergi gagnvart utanaðkomandi fjárfestingu. „Frumkvöðlar líta á fyrirtækin sín eins og afkvæmi,segir hann. „Þú ert að búa eitthvað til frá grunni og það eru óvissuþættir tengdir því að vinna með öðrum. Menn geta hins vegar gert hluti til að minnka óvissuna. Það er t.d. hægt að gera ítarlegt hluthafasamkomulag, hafa allt skýrt og neglt niður, komi til breytinga. Slíkt samkomulag kveður til dæmis á um umsamda ábyrgð, rétt og neitunarrétt og skyldur allra hluthafa. Þar með svokölluð drag along/tag along-ákvæði og forkaupsrétt er kemur til breytinga meðal hluthafa, svo dæmi sé tekið. Samningurinn hefur nú þegar sannað gildi sitt og hjálpað eigendum að vinna eftir skýrum umsömdum leikreglum. Ef þessir hlutir eru á hreinu er ekkert meiri óvissa sem fylgir því að fá fjárfesti með sér til samstarfs heldur en að taka bankalán,segir hann og bætir við: 

„Það er vissulega gott fyrir ímynd ferðaþjónustunnar á Austurlandi að fyrirtækin eru meira og minna í eigu fjölskyldna er veita góða og persónulega þjónustu, en á sama tíma er gott að hafa meðal þeirra fyrirtæki eins og t.d. Óbyggðasetrið og Vök Baths, sem geta nýtt sér markaðsnet er nær víðar. Þannig heyrist rödd Austurlands betur og það skiptir okkur öll máli.

Samhljómur í framtíðarsýn
En myndi Denni ganga svo langt að segja að samstarf hans við fjárfesta hafi verið forsendan fyrir vexti Óbyggðaseturins:

„Það er ekki útilokað að byggja upp fyrirtæki án utanaðkomandi fjárfesta,segir hann. „Það hjálpaði líka til hvað Austurland hefur upp á margt að bjóða en það geta verið margir kostir við fjárfesta. Þú ert ekki bara að fá fjármagn heldur líka öfluga samstarfsmenn. Góður fjárfestir hefur nefnilega heilmikið til málanna að leggja og þú velur ekki bara hvern sem er. Það þarf að vera samhljómur í framtíðarsýninni og gagnkvæmt traust. Í okkar tilviki skipti það máli að við vorum með skýra sýn og vandaða viðskiptaáætlun. Því betur sem þú vinnur grunnvinnuna þeim mun líklegra er að þú fáir til liðs við þig heppilegan fjárfesti sem hefur ekki bara fjármagn fram að færa heldur líka sérfræðiþekkingu, markaðsnet og annað sem hjálpar til við uppbyggingu öflugs fyrirtækis.

Lesa nánar