
Eistnaflug
Þungarokkshátíðin Eistnaflug er haldin í kringum fyrstu helgina í júlí í Neskaupstað ár hvert. Þungarokkarar taka bæinn yfir, og heimamenn skemmta sér með þeim. Hátíðin er þekkt fyrir að fara einstaklega friðsamlega fram en á Eistnaflugi „er bannað að vera fáviti.“

Saga Eistnaflugs er einstaklega falleg en hátíðin er frábært dæmi um grasrótarhátíð sem hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt frá því hún var fyrst haldin sumarið 2005. Þá komu hljómsveitir keyrandi austur á land gegn því að fá ókeypis bensín og bjór. Í dag er þetta ein glæsilegasta tónlistarhátíð landsins og tvímælalaust besta þungarokkshátíð Íslendinga. Á seinni árum hefur fjöldi hljómsveita sem koma fram margfaldast og nú er svo komið að mörg af þekktari þungarokksböndum á heimsvísu sækja Neskaupstað heim til þess að taka þátt í Eistnaflugi.

Eistnaflug er tónlistarhátíð og á hana flykkjast tónlistarunnendur sem fyrst og fremst koma austur til þess að hlusta á góða tónlist en auðvitað líka til þess að skemmta sér vel í góðra vina hópi.