Skógrækt í skóglausu landi
Á Austurlandi má finna marga firði fjarri þjóðvegi nr. 1. Þjóðvegurinn sjálfur liggur í gegnum Egilsstaði þar sem finna má alla þá þjónstu sem hugurinn girnist. Hér er gott að staldra við.
Flestir kannast við gamlan, íslenskan brandara sem hljómar svona: Hvað áttu að gera ef þú villist í skógi? Standa upp. Þetta á ekki alveg við í Hallormsstaðaskógi, skammt frá Egilsstöðum. Skógurinn er 740 hektarar að stærð og sá stærsti á Íslandi. Hér hitti ég fyrir Þór, skógarvörð Austurlands. Hann kom upphaflega hingað til að vinna í nokkra mánuði árið 1984 en varð svo hrifinn af staðnum að hann fór ekki aftur heim. „Fæstir vita hvað þeir vilja gera í lífinu þegar þeir eru 15 eða 16 ára gamlir en það vissi ég,” segir Þór.
Hann segir mér frá því hvað gerir Hallormsstaðaskóg einstakan.
Elstu trjánum var plantað árið 1905 og þau eru því meðal elstu trjáa á landinu. Sama ár hófst verndun íslenska birkisins á Hallormsstað og tilraunir með trjátegundir úr annars konar loftslagi en því íslenska. Nú vaxa í skóginum ríflega 85 tegundir trjáa og runna frá 600 stöðum í heiminum. Lesa má jarðlögin í skóginum eins og tímalínu þar sem sjá má lag fyrir hvert eldgos, það nýjasta frá því Askja gaus árið 1875.
Þór sýnir mér trjásafnið og segir okkur sögu hverrar tegundar. Trén eru m.a. frá Norður-Skandinavíu, Bresku-Kólumbíu, Alaska og Rússlandi. Hann stoppar til að sýna mér peningatréð. Ef þú skilur einn pening eftir í trénu getur þú óskað þér og sagan segir að óskin muni rætast. Þegar Hallormsstaður er heimsóttur en tilvalið að biðja starfsmann Skógræktarinnar um leiðsögn um skóginn. Sumir eiga orðið langan starfsaldur hér. Þeir hófu starfsferil sinn á því að gróðursetja fræ sem nú er orðið að tré í skóginum sem þeir starfa í.
Í Hallormsstaðaskógi eru tvö tjaldstæði, grill- og nestisaðstaða og samtals ríflega 40 km langt gönguleiðakerfi. Í skóginum er einnig ýmis þjónusta, s.s. hótel, veitingastaður, bensínstöð, baðhús, hesta-, báta – og fjórhjólaleiga.
Texti og myndir: Rhombie Sandoval.