Vesturfaramiðstöð Austurlands

Vesturfaramiðstöð Austurlands er rekin af félagasamtökunum Vesturfaranum í samstarfi við Vopnafjarðarhrepp sem leggur til húsnæði. Vesturfarinn er félag fólks sem er áhugasamt um að efla samband við afkomendur vesturfara sem fóru frá Austur- og Norðurlandi eftir Öskjugosið 1875. Flestir fóru frá Vopnafirði, öðrum stöðum í Múlasýslum og Þistilfirði.

Deila

Ljósmynd: Jessica Auer

Vesturfaramiðstöðin er til húsa í menningarhúsi Vopnfirðinga, Kaupvangi. Þar er Cathy Josephsson með viðveru á skrifstofu sinni tvisvar í viku en hún sér um þá þjónustu sem Vesturfarinn býður upp á. Í Kaupvangi er einnig sýning eftir Cathy um vesturferðirnar. Sýningin ber titilinn „Ferðin vestur – Siglt, gengið, riðið og rúllað í lest“ og fjallar hún um ferðalag vesturfaranna og upplifun þeirra.

Cathy Josephsson, umsjónarmaður Vesturfaramiðstöðvar Austurlands. Ljósmynd: Jessica Auer

Í Vesturfaramiðstöð Austurlands er boðið upp á ættfræðiþjónustu. Þá er farið aftur í tímann í leit að ættingjum og leitað eftir tengingu við samtímann. Einnig er afkomendum vesturfara boðið upp á aðstoð við undirbúning heimsóknar til Íslands en þannig getur fólk hitt ættingja hér á landi og komist á æskuslóðir forfeðra sinna.

Vopnfirðingar misstu mikið af sínu fólki vestur um haf á sínum tíma. Margir hafa lagt mikla vinnu í að finna fólkið sitt. Nú fólk er fólk farið að koma til Íslands frá Kanada til þess að finna ættingja sína.