Líf bóndans

 „Það stóð ekki til að verða bóndi,“ segir Jón Björgvin Vernharðsson, bóndi á Teigaseli 2 í Jökuldal. Þann 1. febrúar 2011 hóf Jón búskap þar ásamt eiginkonu sinni, Lindu Björk Kjartansdóttur.

„Ég ólst upp á Möðrudal en hafði búið á Egilsstöðum og svo á Akureyri. Um 25 ára aldurinn langaði mig aftur í sveitina. Mig langaði að fara í eigin rekstur og komast út í náttúruna og síðan hef ég mjög gaman af tækjum og vélum og það er nóg af þeim í nútíma sveitastörfum,“ segir Jón og bætir við: „Svo skemmdi ekki fyrir að konan mín er húsasmiður og búfræðingur og hefur mikinn áhuga á sauðfjárrækt. Hún er eiginlega meiri bóndi en ég nokkurn tímann,“ segir hann.

Teigasel 2 er 1150 hektara jörð. Jón og Linda eru með rétt rúmlega 500 kindur á vetrarfóðrum og nokkrar endur. Að gerast sauðfjárbændur á ofanverðri 21. öld er mikil áskorun: „Peningalega séð er þetta erfitt,“ segir Jón og heldur áfram: „Sauðfjárrækt gefur ekki mikið af sér og það þurfti að bæta aðstöðuna hér á Teigaseli nokkuð þegar við byrjuðum og það kostaði mikla aukavinnu. Það tókst með dyggri aðstoð ættingja og vina en ég vinn mikið utan búsins. Rýi um 10 000 kindur á ári, ek sláturbíla á haustin og tek að mér alls konar smáverk og á meðan sér Linda um gjafir. Þannig að það er ekki alveg hindrunarlaust að hefja sauðfjárrækt en það fara fæstir í sauðfjárrækt til að prófa. Menn ætla sér einfaldlega að verða sauðfjárbændur og ef viljinn er fyrir hendi þá tekst það.“

Jón segir að sauðfjárræktin sé gefandi vinna: „Allir bændur, eða langflestir, eru dýravinir,“ segir hann. „Þeim finnst gaman að umgangast dýr og hafa áhuga á þeim hvort sem það er sauðfé, nautgripir, hundar eða hvað sem er. Það getur verið erfitt að útskýra þetta en ég skal reyna: Við erum nýbúin að fá þær fréttir að það séu 930 fóstur í kindunum okkar og það bíður okkar ærið verkefni að halda lífi í þeim í vor. Svo sleppir maður þeim til fjalla og lítur til baka yfir sauðburðinn og yfir mann kemur góð og einstök tilfinning. Maður er sáttur.“

„Flestir bændur sem ég þekki eru vinnusamir,“ segir Jón. „Okkur finnst gaman að vinna og vinnum mikið. Ég get nefnt sem dæmi að áhugamál margra bænda, sérstaklega af yngri kynslóðinni, er að halda úti björgunarsveit. Hvað er björgunarsveit? Jú, endalaus vinna fyrir litla sem enga peninga. En menn eru ánægðir með sitt verk og launin eru þakklæti.“

Jón og Linda eiga þrjú börn sem heita Heiðdís Jökla, Snærún Hrafna og Fannar Tindur. Þau eru á aldrinum 1 til 5 ára. Þótt þau búi á Jökuldal, nánar tiltekið í Austurdal, finnst þeim sveitin alls ekki afskekkt. „Hlutirnir hafa breyst svo mikið á seinni árum,“ segir hann. „Margir bændur eru mjög tæknivæddir og kunna t.d. að nota alls kyns samfélagsmiðla. Þeir nota þetta til að eiga samskipti við hvern annan en ekki síður til að miðla lífinu í sveitinni til annarra sem ef til vill þekkja ekki þennan heim. Það mætti nefna Snapchat-rásirnar „Ungur bóndi“ og „Reyndur bóndi“ sem eru ótrúlega vinsælar. Fólk veit of lítið um hvernig lífið gengur fyrir sig í sveitinni og það er miður. Þessi nútímatækni spornar gegn því sambandsleysi sem maður upplifir stundum á milli sveitarinnar og þéttbýlisins og það er mjög af hinu góða,“ segir Jón Björgvin Vernharðsson, bóndi á Jökuldal.

Texti: Jón Knútur Ásmundsson.

Myndir: Daniel Byström. 

Lesa nánar