Þar sem vegurinn endar

Það er eilítil fyrirhöfn að komast austur á Dalatanga. Fyrst þarf jú að keyra niður í Mjóafjörð eftir bröttum malarvegi og síðan brunar maður eftir norðurströndinni, út í Brekkuþorp og svo heldur rúnturinn áfram og maður ekur veginn á enda. Lengra austur kemst maður ekki. Í það minnsta ekki akandi. Heimsókn á Dalatanga er ógleymanleg öllum sem leggja þetta ferðalag á sig. 

Á Dalatanga búa í dag mæðgurnar Marsibil Erlendsdóttir og Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir. „Það breyttist margt eftir að dóttir mín flutti hingað,“ segir Marsibil en maðurinn hennar, Heiðar Woodrow Jones, lést árið 2014 eftir erfið veikindi. „Hún sendir veðrið á móti mér en áður fyrr var þetta í mínum verkahring enda var maðurinn minn veikur í mörg ár og gat ekki sinnt þessu mikið. En svo hafa, síðustu ár, verið Þjóðverjar hjá mér í lengri og skemmri tíma og vilja hvergi annars staðar vera. Þeir létta líka mikið undir.“

Aðalheiður Elfríð kláraði BA-próf í íslensku fyrir fáeinum árum síðan og ákvað að flytja aftur heim á Dalatanga að námi loknu. „Henni finnst gott að vera á afskekktum stað – segist hvergi annars staðar vilja vera,“ segir Marsibil og hlær. Aðspurð hvort hún sé komin með arftaka svarar hún ákveðið:

„Ég vona það!“

Ertu orðin fræg?

Marsibil hefur gegnt starfi vitavarðar og veðurathugunarmanns og er einn fárra vitavarða sem eftir eru á landinu. Þetta starf fylgir fjölskyldunni en foreldrar Marsibil voru bændur og vitaverðir á Dalatanga um árabil og tóku hún og Heiðar við af þeim árið 1994. Í dag deilir hún starfinu með dóttur sinni sem fyrr segir.

„Það var gaman að vera hér sem barn,“ rifjar Marsibil upp en hún flutti til Dalatanga með foreldrum sínum átta ára gömul frá Siglufirði. „Ég átti fullt af systkinum og manni leiddist aldrei. Mamma og pabbi voru líka með tökubörn á sumrin þannig að það var nóg af leikfélögum. Við lékum okkur með horn og kjamma, vorum mikið á hestbaki, hugsuðum um dýrin – já og vorum bara mikið úti að leika okkur. Maður ólst upp við mikið sjálfstæði og frjálsræði – svo mikið að ég gæti aldrei flutt í kaupstaðinn. Auðvitað höfðum við skyldur hérna líka sem fylgja skepnuhaldi: Heyskapur, smölun, sauðburður, girðingastúss og ég veit ekki hvað og hvað. En það er bara gaman að sinna þessu.“

Og það er svo sem ekki einmannalegt þarna á hjara veraldar. Sérstaklega á sumrin. Ferðamenn eru duglegir að heimsækja Dalatanga og fjölmiðlar segja alltaf reglulega frá staðnum og vitavörðunum. Svo mikil er athygli fjölmiðla að Marsibil þykir stundum nóg um!

„Það tekur tíma að sinna þessum blaðamönnum og stundum nenni ég því ekki. En stundum finnst mér það líka bara gaman og ég kvarta ekki.“

„Ertu orðin fræg?“ spyr blaðamaður en Marsibil hlær bara að svona vitlausri spurningu.

Órofinn svefn? Hvað er það?

Í árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 2005 eftir Hjörleif Guttormsson koma fram þessar upplýsingar um vitana tvo á Dalatanga: Sá eldri var reistur að frumkvæði Óttós Wathne árið 1895, hlaðinn úr blágrýti og steinlím á milli. Er hann varðveittur vegna minjagildis. Yngri vitinn var byggður árið 1908 og er enn í notkun. Hann var endurbyggður árið 1918 og þá var settur í hann þokulúður. Seinna kom til „loran“ miðunarstöð og fleiri tækniundur. Orðrétt segir í bókinni: „Jeppafært varð frá Brekku út á Dalatanga 1956 en slóð síðan löguð í áföngum, einkum á 9. áratug síðustu aldar. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundafjarðar og Seyðisfjarðar. Til sólar sést þaðan allt árið og er fallegt að horfa á hana rísa úr sæ sumar sem vetur.“

Á Dalatanga hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1938 og þaðan berast veðurupplýsingar á þriggja klukkustunda fresti allan sólarhringinn. Þetta hljómar eins og rómantískasta starf í heimi þangað til maður áttar sig á því að það þarf í raun og veru manneskju af holdi og blóði til að ná í þessar upplýsingar á þriggja klukkustunda fresti. Allan sólarhringinn. Alla daga ársins.

Blaðamaðurinn settist niður í stofunni í íbúðarhúsinu á Dalatanga og Marsibil bauð upp á kaffi. Á stofuborðinu hjá henni var bók sem hét „Svona á að… – 500 hlutir sem gott er að kunna“ – mikið þarfaþing á þessu heimili mátti gera ráð fyrir. Í henni voru leiðbeiningar um alls kyns hluti, s.s. hvernig skrifa skuli með ósýnilegu bleki, taka handbremsubeygju, verjast árás hlébarða og sitthvað fleira.

Marsibil tók fram í upphafi spjallsins að ekki mætti spyrja hana hvernig væri að búa á Dalatanga, hún væri orðin þreytt á spurningunni. En það mátti spyrja hvort ekki væri betra að vera svolítið sjálfbjarga þarna á ysta hjara veraldar.

„Ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara þessu,“ sagði Marsibil.

„Kanntu skurðlækningar?“

„Nei, ekki nema þegar þarf að sauma einhverjar skepnur. Þá geri ég það. Það kemur stundum fyrir að þær meiði sig og stundum þarf að sprauta þær. Þetta þarf maður að kunna hérna á Dalatanga.“

„Já, þetta tengist óbeint svolitlu sem við ætlaðum reyndar að spyrja þig út í. Segðu okkur frá því þegar þú varst ófrísk hérna einhvern tímann um miðjan níunda áratuginn…“

„Þetta var í nóvember 1983 og ég var komin inn í Mjóafjörð til Helgu systur og beið eftir að barnið fæddist. Svo var þetta eitthvað misreiknað hjá mér og hjúkrunarkonunum. Ég fékk að fara heim og maðurinn minn náði í mig. Um nóttina byrja ég að fá verki og ég vissi nú ekki alveg hvað var í gangi. Heiðar brunaði með mig inn í Mjóafjörð á ægilega hastri Toyotu Hilux (um það bil 16 km leið). Þegar ég var komin inn eftir missi ég vatnið og þá fóru allir í panikk, héldu að allt væri að fara gerast. Flóabáturinn Anný, sem sigldi á milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar, var ræstur út, ég var látin á sjúkrabörur og það fóru nokkuð margir með frá Mjóafirði man ég. Og margir viðstaddir þegar krakkinn fæddist! Ljósmóðirin hringdi í okkur og hún var lögð af stað frá Neskaupstað. Hún kom um borð undir Nípunni og svo fæddist krakkinn rétt áður en við komum að bryggjunni á Norðfirði. Þetta var bara fínt, ég fann ekkert mikið til og það var ægilega gott veður.“

Í Þjóðviljanum sáluga eru þessum atburði gerð skil á baksíðu tölublaðsins er kom út 29. nóvember árið 1983. Þar segir:

„Þegar lagst var að bryggju var of seint að fara frá borði og fæddi Marsibil 11 marka, heilbrigðan strák undir beru lofti um borð í bátnum við bryggjuna. Veður var hið besta stillt og gott en svartamyrkur. Allt var tilbúið um borð í bátnum þegar fæðingin varð, búið að sjóða skæri, spotta o.s.frv. og gekk allt að óskum. Þótt viðstöddum þetta vera hinn fegursti atburður. Móður og barni líður vel.“

Ekkert mjög rómantískt starf

Sem fyrr segir er Marsibil veðurathugarmaður hjá Veðurstofu Íslands. Hún er fyllilega meðvituð um mikilvægi síns starfs. Bæði hugsar hún mikið um veðrið út frá eigin þörfum. Hún er bóndi og þarf að vita hvernig næstu dagar líta út í veðurfarslegu tilliti. Og þá veit hún að sjómenn eru dyggustu hlustendur veðurfrétta og treysta á nákvæmar veðurlýsingar. Það er því einfaldlega háalvarlegt öryggismál að þessari vinnu sé samviskusamlega sinnt. En hvernig skyldi venjulegur dagur á Dalatanga vera?

„Nú, hér þarf að taka veður á þriggja tíma fresti,“ svarar Marsibil. „Og það þarf að miða allt við það. Það þarf alltaf að taka veðrið þó maður sé að heyja eða gera eitthvað annað. Það þarf að sinna þessu. Svo þarf að vakna á næturna á þriggja tíma fresti…“

„Já, ókei…er þetta gott djobb?“

„Þetta venst eins og hvað annað. En þetta er auðvitað ekki eina starfið mitt. Ég er með skepnur hérna og svo er ég með fjárhunda sem ég tem. Sinni því svona á kvöldin og þegar ég á frí. Það er nóg að gera. Já, og svo er ég vitagæslumaður. Það er nú svona hálfgert aukastarf. Fer í vitann þegar þarf að skipta um peru og svona.“

„Það eru margir sem hafa rómantískar hugmyndir um vitagæslu. Er það á einhverjum raunveruleika byggt?“

„Nei, ekki get ég nú sagt það. Þetta er ekkert mjög rómantískt starf. Það þarf að skipta um perur, þrífa og sitthvað fleira. Svo sýni ég ferðamönnum vitann en oft er fólk reyndar ekkert að tala við okkur. Það keyrir bara út á vita, snýr við og keyrir til baka aftur. Mér finnst alveg gaman þegar fólk heilsar upp á mig og spyr spurninga. Það var meira um það áður að fólk bankaði upp á og spurði spurninga. Minna um þetta núna. Ég myndi allavega vilja sjálf kíkja inn í vitann ef ég væri búin að keyra alla þessa leið.“

„Verður byggð hér svo lengi sem það er veðurathugunarstöð?“

„Tja, það er góð spurning. Það er eins og enginn vilji koma hingað og setjast að. Ég hélt að strákurinn minn myndi vilja setjast að hér en hann hætti við. Þetta er of afskekkt fyrir ungt fólk þótt allt sé til alls hérna, internet og tölvur.“

„Já, þetta tengist nú spurningu sem við vorum búin að lofa þér að spyrja ekki en…þetta er afskekkt, því verður ekki neitað. Kostir og gallar?“

„Gallinn var að senda krakkana í burtu í skóla þegar þeir voru litlir. Þegar þeir byrjuðu máttu þeir koma heim og vinna heimalærdóminn hér en svo lengdust tímabilin og undir það síðasta voru þeir í burtu meira og minna allan veturinn. Heima á jólum og páskum. En maður vandist því. Allt annað eru kostir. Þetta voru einu gallarnir.“

Í vitanum

Eftir spjallið í húsinu fengum við okkur göngutúr í vitann. Það var einstaklega góð tilfinning að standa þar uppi og virða fyrir sér opið hafið og óneitanlega hugsar maður hvernig skyldi eiginlega vera að búa hér um miðjan vetur, í svartasta skammdeginu, gangandi á milli í kafaldsbyl til að skipta um ljósaperu? Eða senda veðurskeyti?

„Skortir aldrei neitt hérna?“ spurði blaðamaður.

„Ég læt það vera. Maður getur lifað lengi á því sem maður á. Auðvitað kaupi ég hveiti og sykur og fleira á haustin en ég er með nóg kjöt og svo er ég með belju og fæ mjólk. Þegar tækifærin gefast þá kaupi ég eitthvað en ef eitthvað vantar þá bara vantar það. Maður þarf ekkert mjög mikið. Ég fer ekki á taugum þótt það vanti parmesanost og ég skil ekki fólk sem panikkar ef það kemst ekki í búðina á hverjum degi.“

„Þú myndir hvergi annars staðar vilja vera?“

„Nei, eru hlutirnir eitthvað betri annars staðar? Hef ekki prófað það sjálf svo sem. Ef manni líður vel þá bara skiptir ekki máli hvar maður býr. Og það þýðir auðvitað ekkert að vera neikvæður hér á Dalatanga. Það er bara til að drepa mann.“

Texti: Jón Knútur Ásmundsson.
Myndir: Rhombie Sandoval og Jón Knútur Ásmundsson.

Lesa nánar