Baðstaðir

Það eru sundlaugar eða annars konar baðstaðir í flestum bæjum á Austurlandi. Í boði eru klassískar sundlaugar, heitir pottar við sjóinn og náttúrulaugar til fjalla. Fjölbreytnin er heilmikil svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Vök – Baths

Vök Baths

Vök Baths stendur á bökkum Urriðavatns rétt fyrir utan Egilsstaði. Tvær heitar laugar eru á strönd vatnsins en sérstaða Vök Baths eru vakirnar tvær sem eru fljótandi laugar staðsettar úti í Urriðavati. Í þeim ná gestir að upplifa einstaka tengingu við náttúruna útsýni í allar áttir. Auk þess eru á svæðinu gufubað, köld úðagöng og laugarbar. 

Þrátt fyrir að Ísland sé þekkt fyrir jarðhita er Austurland skilgreint sem kalt svæði. Jarðhitinn í Urriðavatni uppgötvaðist þegar ákveðnar vakir héldu sér á vatninu sama hvernig frysti. Þær vakir eru innblásturinn fyrir heitu laugarnar, sem nú fljóta í vatninu og eru helsta kennimerki Vök Baths.

Staðsetning

Stefánslaug, Neskaupstað.

Stefánslaug Neskaupstað

Stefánslaug er glæsileg útisundlaug staðsett á sólríkum stað í hlíðum Neskaupstaðar. Þar eru tveir heitir pottar, gufubað, tvær stórar rennibrautir og góð sólbaðsaðsaðstaða.

Stefánslaug var tekin í notkun árið 1943 og stendur því á gömlum merg. Á árunum 2001 til 2006 var sundlaugin endurbyggð nánast frá grunni, fyrst 25 metra sundlaugarkarið og síðan þjónustuhúsið. Skömmu síðar bættust svo stóru rennibrautirnar við aðstöðuna en þær njóta mikilla vinsælda, ekki hvað síst hjá yngstu kynslóðinni.

Staðsetning

Sundlaug Eskifjarðar

Sundlaug Eskifjarðar

Sundlaugin á Eskifirði  opnaði árið 2006 og er sú nýjasta af klassísku sundlaugunum á Austurlandi. Laugin er 25 metra löng og við hana eru heitir pottar, vaðlaug, þrjár rennibrautir og gufubað. Laugin er vel staðsett við innkomuna í bæinn og af svæðinu er hægt að njóta tilkomumikils útsýnisins til fjallanna í kring.

Staðsetning

 

Sundhöll Seyðisfjarðar

Sundhöll Seyðisfjarðar

Sundhöllin á Seyðisfirði var byggð árið 1948 og var hönnuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Sundlaugin er lítil en vinaleg innilaug. Þar eru einnig tveir heitir pottar inni og sauna en úti er aðstaða til sólbaða.

Staðsetning

Sundlaugin á Egilsstöðum.

Sundlaug Egilsstaða

Við Íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum er 25 metra útisundlaug. Við laugina eru tveir heitir pottar (annar með góðu nuddi), kalt ker, vaðlaug, rennibraut og gufubað. Svæðið er skjólgott og sólbekkir í boði á sumrin.

Staðsetning

Sundlaugin á Breiðdalsvík

Sundlaug Breiðdalsvíkur

Sundlaugin á Breiðdalsvík er lítil en sjarmerandi og við hana er einn heitur pottur. Þar er gott að slaka á í fallegu umhverfi.

Sundlaug Stöðvarfjarðar

Á Stöðvarfirði er einstaklega falleg útilaug með einum heitum potti. Sundlaugin var byggð árið 1982 og er 16,67 metrar að lengd.

Staðsetning

Selárlaug

Selárlaug Vopnafirði

Sundlaugin er 3,5 km frá þjóðvegi 85 á leið til Bakkafjarðar, 12 km frá Vopnafjarðarkauptúni. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er gott við Selárlaug. Þar er nestisaðstaða og stór sólpallur ásamt rúmgóðum heitum potti, litlum köldum potti og barnalaug. Laugin er rómuð fyrir umhverfi sitt enda stendur hún á einstaklega fallegum stað með útsýni yfir laxveiðiána Selá þar sem hún rennur í grunnu gljúfri. Staðsetning laugarinnar réðst á sínum tíma af því að þar er uppspretta með heitu vatni.

Staðsetning

Sundlaug Djúpavogs

Sundlaug Djúpavogs

Sundlaug Djúpavogs er staðsett í Íþróttamiðstöð Djúpavogs. Um er að ræða tæplega 17 metra langa innilaug með heitum pottum inni og úti, og einum köldum potti ásamt vaðlaug.

Staðsetning

 

Náttúrulaugin í Óbyggðasetrinu.

Náttúrulaugin við Óbyggðasetrið

Í Óbyggðasetrinu í Fljótsdal er baðhús en aðgangur að því er innifalin fyrir þá sem þar gista. Við baðhúsið er heit náttúrulaug en inni er gufubað og hvíldarherbergi með eldstæði.

Staðsetning

 

Laugarfell

Laugarfell

Við Laugarfell eru tvær gamaldags náttúrulaugar en sögur segja að heita vatnið í þeim búi yfir lækningarmætti. Úr laugunum er glæsilegt útsýni þar sem Snæfell gnæfir yfir í fjarska. Það er dásamlegt að slaka á í heitum laugunum og njóta kyrrðarinnar eftir fjallgöngur eða útsýnisferðir.

Staðsetning