Fossar

Austurland er þekkt fyrir stórbrotna náttúru; þrönga firði, gróðursæla dali og víðáttumiklar heiðar. Svæðið er ein stór útivistarparadís. Sérstaklega mikið er um fossa af öllum stærðum og gerðum sem skemmtilegt er að skoða. Merktar gönguleiðir eru að mörgum þeirra.

Hengifoss. Ljósmynd: Björn Steinbekk

Hengifoss

Hengifoss er í norðanverðum Fljótsdal á móts við innri enda Lagarfljóts. Hann er næst-hæsti foss landsins, 128 m hár. Í fossbrúninni eru blágrýtislög en undir þeim sandsteinn. Í berginu finnast steingerðir trjástofnar sem vitna um mun hlýrra loftslag, enda er sandsteinninn myndaður á tertíertíma. Nokkru neðan við Hengifoss er annar foss, Litlanesfoss, umvafinn óvenju fallegri stuðlabergsumgjörð.

Staðsetning

Strútsfoss.

Strútsfoss

Strútsfoss í Strútsá steypist fram af brúnum Villingadals sem gengur inn af Suðurdal. Fossinn telst með þeim hærri á landinu en hann er tvískiptur. Neðri hluti hans er um 100 metra hár og sá efri um 20 metrar. Að öllum líkindum draga áin og fossinn nafn sitt af strýtulaga klettadranga eða dröngum í gilinu. Strútsgil er afar litfagurt en í því skiptast á basalthraun og setlög sem eru tugir metra á þykkt. Mikið er um rauð og gulbrún millilög, og líparít má sjá á einum stað. Innri-Þverá fellur ofan í gilið skammt frá Strútsfossi og myndar fallega fossaröð.

Staðsetning

Mynd: Páll Guðmundur Ásgeirsson

Faxi

Faxi er einn stærsti foss Austurlands. Hann er hluti af gönguleiðunum Fossahringurinn og Fossaleið. Jökulsá í Fljótsdal og Laugará sameinast í Faxa og er skemmtilegt að sjá brúnleita jökulá og ferskvatnsá sameinast í fossinum. Best er að komast að Faxa með því að ganga stikaða leið frá Laugarfelli. Margir aðrir fossar eru í nágrenninu, til dæmis  Stuðlafoss og Kirkjufoss.

Staðsetning

Beljandi. Ljósmyndari: Páll Guðmundur Ásgeirsson

Beljandi

Í Breiðdalsá, skammt fyrir utan bæinn Brekkuborg í Breiðdal, er fossinn Beljandi. Raunar eru fossarnir tveir, ytri og innri, og samnefndir hylir við. Þetta er mjög fagurt svæði og skemmtilegt til útivistar.

Staðsetning

Flögufoss. Ljósmynd: Páll Guðmundur Ásgeirsson

Flögufoss

Flögufoss er hæsti foss í Breiðdal um 60 m. Fossinn er í Flöguá sem rennur um Flögudal. Dalurinn sá afmarkast af Smátindum og Slötti. Frá vegi er stutt og létt gönguleið að fossinum.

Staðsetning

Ysti – Rjúkandi

Ysti – Rjúkandi

Þennan tignarlega foss má sjá þegar keyrt er eftir Hringveginum um Jökuldal. Ofan við vegin er bílastæði og þaðan er göngustígur upp að fossinum. Hann er er einn þriggja fossa sem bera nafnið Rjúkandi en hinir eru mun vatnsminni.

Staðsetning

Mynd: Páll Guðmundur Ásgeirsson

Hverfandi

Hverfandi er um 100 metra hár manngerður foss. Hlutverk fossins er að við yfirfalli vatns úr Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar. Nafnið vísar til þess að fossinn kemur og fer, allt eftir stöðunni á Hálslóni. Síðsumars geta um 70 rúmmetrar af vatni farið á sekúndu niður í gljúfrið, og í sínum mesta ham verður hann aflmesti foss Evrópu.

Staðsetning

Mynd: Visit Vopnafjörður

Gljúfursárfoss

Í Gljúfursá austan megin í Vopnafirði má finna hinn glæsilega Gljúfursárfoss. Hann fellur fram í litfögru gljúfri rétt fyrir neðan bílastæði við veginn sem liggur yfir á Hérað um Hellisheiði. Frá bílastæðinu er merkt gönguleið niður með ánni og um Drangsnes. Að ganga með fram þverhníptum klettunum er mikil upplifun og lætur fáa ósnortna.

Staðsetning

Mynd: María Hjálmarsdóttir

Gufufoss

Gufufoss fellur í Fjarðará innst í Seyðisfirði við rætur Fjarðarheiðar. Hann sést vel frá veginum og gott aðgengi er að honum. Gufufoss dregur nafn sitt af miklum úða sem myndast þar sem hann fellur í ánna.

Staðsetning

Mynd: Páll Ásgeir Guðmundsson

Fardagafoss

Fardagafoss er skammt frá Egilsstöðum við rætur Fjarðarheiðar. Hann er efstur þriggja fossa í Miðhúsaánni en hinir heita Gufufoss og Folaldafoss. Merkt gönguleið liggur að Fardagafossi og er hún greiðfær næstum alla leið. Bak við fossinn er hellir. Sagnir herma að í honum hafi haldið til tröllskessa og var því trúaðað frá þeim helli lægju jarðgöng yfir í Gufufoss í Fjarðará, handan heiðarinnar. Önnur sögn hermir að náttröll búi í hellinum er hafi í fórum sínum ketil fullan af gulli.

Staðsetning

Mynd: Páll Ásgeir Guðmundsson

Bleiksárfoss

Bleiksá og fossarnir í henni taka á móti þér þegar ekið er inn í þorpið á Eskifirði. Fossinn er lýstur upp í myrkri.

Bleiksá á upptök sín við fjallið Harðskafa þaðan sem hún rennur niður í Eskifjörðinn fram hjá Kirkju- og menningarmiðstöðinni og tjaldsvæðinu. Tiltölulega þægilegar gönguleiðir liggja að fossinum en þar má einnig sjá marga minni fossa.

Staðsetning

Kirkjufoss

Mynd: Páll Ásgeir Guðmundsson

Kirkjufoss

Kirkjufoss í Jökulsá í Fljótsdal er einn vatnsmesti foss Austurlands. Hann er einn af fossunum í gönguleiðinni Fossahringnum sem farin er frá Laugarfelli.

Staðsetning

Mynd: Páll Ásgeir Guðmundsson

Búðarárfoss

Búðarárfoss er rétt fyrir ofan þéttbýlið í Reyðarfirði. Skemmtileg gönguleið liggur frá miðbænum upp með Búðarárgili, fram hjá Íslenska stríðsárasafninu, að Búðarárfossi og stíflu Rafveitu Reyðarfjarðar sem er rétt fyrir ofan fossinn. Göngustígurinn liggur frá brúnni yfir Búðará, á sem liggur í gegnum miðbæ Reyðarfjarðar á leið sinni til sjávar.

Staðsetning

Klifbrekkufossar

Klifbrekkufossar er stórfengleg röð fossa innst inn í botni Mjóafjarðar. Þeir blasa við hægra megin þjóðvegins þegar ekið er niður af Mjóafjarðarheiði.

Staðsetning