Fjölskylduvænt

Austurland býður upp á fjölbreytta möguleika til útivistar og afþreyingar. Það er misjafnt hvað hentar hverjum og getur verið strembið að hafa ofan af fyrir öllum. Hér eru tillögur að ýmsu sem skemmtilegt er fyrir alla fjölskylduna að gera saman.

Við Fardagafoss. Mynd: Páll Ásgeirsson

Gönguferð að Fardagafossi

Fardagafoss er skammt frá Egilsstöðum við rætur Fjarðarheiðar. Hann er efstur þriggja fossa í Miðhúsaánni en hinir heita Gufufoss og Folaldafoss. Merkt gönguleið liggur að Fardagafossi og er hún greiðfær næstum alla leið. Bak við fossinn er hellir. Sagnir herma að í honum hafi haldið til tröllskessa og var því trúaðað frá þeim helli lægju jarðgöng yfir í Gufufoss í Fjarðará, handan heiðarinnar. Önnur sögn hermir að náttröll búi í hellinum er hafi í fórum sínum ketil fullan af gulli.

Staðsetning

Á leið í Páskahelli

Gönguferð að Páskahelli

Í Fólkvangi Neskaupstaðar er hellisskúti sem heitir Páskahellir. Merkt gönguleið er frá bílaplani yst í Neskaupstað út með ströndinni að hellinum. Við hellinn er stigi niður í fjöruna þar sem komast má inn í hellinn. Þetta er skemmtileg leið sem sýnir fjölbreyttar náttúrumyndanir og hún hentar fjölskyldufólki vel.

Tvær sögur eru til af því hvernig hellirinn fékk nafn sitt. Annars vegar er sagt að á páskadagsmorgun megi sjá sólina dansa í hellinum. Hin sagan segir einnig að Bakkabóndi hafi þar forðum á páskadagsmorgun náð hami fríðrar selameyjar sem hafði ásamt fleirum úr liði Faraós gengið þar á land til gleðileika. Giftist bóndinn henni og áttu þau sjö börn. Náði hún þá haminum aftur og hvarf í sæ til annarra sjö barna. Seinna bætti sami bóndi kúakyn sitt með sænauti en hann náði að sprengja belg þess við Uxavog. Var talið að selkonan hafi þar sent fyrrum manni sínum björg í bú.

Staðsetning

 

Óbyggðasetrið er frábær upplifun

Óbyggðasetrið

Óbyggðasetrið býður upp á fjölbreytta afþreyingu, heimilislegan veitingastað og gistingu í einstöku umhverfi. Lifandi sýning Óbyggðasetursins um ævintýri óbyggðanna hentar gestum á öllum aldri. Fjöldi gönguleiða er í nágrenninu og margar þeirra henta fjölskyldufólki vel. Dæmi um styttri göngu er eyðibýlagangan sem liggur inn með ánni að endurgerðum kláf sem gestum er velkomið að prófa. Einnig eru á staðnum baðhús og náttúrulaug þar sem dásamlegt er að njóta óbyggðakyrrðarinnar.

Staðsetning

Upplifðu austfirska náttúru af hestbaki

Hestaferðir

Íslenski hesturinn er uppáhald margra og þekktur víða um heim sem fyrirtaks fararskjóti. Víðsvegar um Austurland eru hestaleigur þar sem boðið er upp á lengri og skemmri ferðir og þær sniðnar að þörfum hvers og eins. Það er einstök og öðruvísi upplifun að njóta austfirskrar náttúru af hestbaki.

Hér getur kynnt þér hvaða hestaafþreying er í boði á svæðinu

Það eru yfir 80 tegundir trjáa í Trjásafninu

Trjásafnið á Hallormsstaðaskógi

Í Hallormsstaðaskógi er trjásafn með um 80 tegundum trjáa og runna víðsvegar að úr heiminum, og er safnið einstakt á landsvísu. Best er að hefja gönguna um trjásafnið á bílastæðinu við þjóðveginn, þar sem einnig er salernisaðstaða, og fylgja göngustígnum þaðan um safnið. Mælt er með að gefa sér 2 til 3 klukkustundir til þess að skoða safnið og njóta útiverunnar. Einnig er tilvalið að hafa með sér nesti, sem skemmtilegt er að taka með sér niður að Fljótinu og snæða.

Staðsetning

Ljóssastapi við Skjólfjörur í Vopnafirði

Fjöruferðir

Strandlengjan á Austurlandi er stórbrotin og fjölbreytt. Fjöruferðir eru tilvalin útivist fyrir fjölskylduna. Í fjörum getur verið margt að sjá og ýmis tækifæri til þess að bregða á leik. Tilvalið er að taka með sér nesti njóta útiverunnar til hins ýtrasta.

Dæmi um skemmtilegar fjörur á Austurlandi eru Sandvík og Skjólfjörur í Vopnafirði, Vöðlavík, Meleyri við Breiðdalsvík og Hvítisandur og Grjóteyrarmöl við Djúpavog.

Frábært útsýni frá Tvísöng yfir Seyðisfjörð

Tvísöngur

Tvísöngur er tónlistarskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne en listaverk Lukasar Kühne snúast um samspil rýmis og tíðni. Það sam­an­stend­ur af fimm sam­byggðum hvelf­ing­um af mis­mun­andi stærð. Hæð hvelf­ing­anna er tveir til fjór­ir metr­ar en flat­ar­mál verks­ins í heild er rúmlega 30 m2. Hver hvelfing hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni.Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur.

Verkið er staðsett á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Til þess að fara að Tvísöng þarf að ganga malarveg sem liggur á móti fiskvinnslunni Brimberg í 15-20 mín.

Staðsetning

Í Selskógi er hægt að lenda í ýmsum ævintýrum

Selskógur

Selskógur er fjölskylduvænt útivistarsvæði austan við Egilsstaði. . Um skóginn liggja skemmtilegir, kurlbornir stígar í fallegu umhverfi. Gönguleiðirnar sem liggja um skóginn er mjög fjölbreyttar og ættu allir að geta fundið gönguleið við sitt hæfi. Víða eru áningarstaðir þar sem gott er að tylla sér niður og njóta útiverunnar. Í miðjum skóginum er opið svæði sem heitir Vémörg og þar eru leiktæki, grill, borð og bekkir. Þar er einnig stór grasflöt þar sem hægt er að fara í leiki. Einnig er útileikhús í skóginum þar sem haldnir eru tónleikar og leiksýningar undir berum himni auk þess sem skátafélagið Héraðsbúar er þar með aðstöðu. Á veturna er gönguskíðabraut troðin í skóginum og er hún lýst upp er skyggja fer.

Staðsetning

Kárahnjúkasvæðið er skemmtilegt

Kárahnjúkar

Ferð inn í Kárahnjúka er tilvalin bílferð fyrir fjölskylduna. Malbikaður vegur liggur úr Fljótsdal alveg inn að Kárahnjúkastíflu. Hægt er að fara hring um hálendið og fara út Jökuldal eða Jökuldalsheiði til baka en það eru ekki allir hlutar þeirra leiða malbikaðir.

Kárahnjúkasvæðið er kjörið til útivistar. Það er skemmtilegt að skoða Kárahnjúkastíflu sjálfa og Hálslónið. Þegar Hálslón fyllist og fer á yfirfall myndast fossinn Hverfandi við vestari enda stíflunnar og þar steypist vatnið um 100 metra niður í Hafrahvammahljúfur. Fossinn er svakalega aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Einnig eru skemmtilegar gönguleiðir á svæðinu, til dæmis er skemmtileg gönguleið með fram Hafrahvammagljúfri og í Magnahelli en til þess að komast að upphafsstað merktu gönguleiðarinnar þarf fjórhjóladrifinn bíl.

Staðsetning

Hólmanes og Hólmatindur

Hólmanes

Hólmanes milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar var friðlýst sem fólkvangur og að hluta til sem friðland árið 1973. Hólmanes er kjörið til útivistar, hvort sem er í klettum eða fjöru, og hentar allri fjölskyldunni. Merktar gönguleiðir eru um svæðið og þar er mikið fuglalíf. Á leið út nesið Eskifjarðarmegin má sjá útlínur hvals sem skólabörn mynduðu í fjörunni og Reyðarfjarðarmegin verður mikilfengleg urð á vegi göngugarpa.

Staðsetning

Við Helgustaðanámu

Helgustaðanáma

Helgustaðanáma er gömul silfurbergsnáma í landi Helgustaða í Eskifirði sem var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Helgustaðanáma er eins frægasta silfurbergsnáma heims en þar var silfurberg unnið frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Silfurberg er eitt sárafárra náttúrufyrirbæra sem er á mörgum tungumálum kennt við Ísland en enska heitið er Iceland spar. Mest af því silfurbergi sem finnst á söfnum heimsins er úr Helgustaðanámu en mörg stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum hafa fundist í námunni. Mikið hefur verið um brottnám silfurbergs úr námunni á síðustu árum en silfurbergið er nú friðlýst og er stranglega bannað að nema það brott.

Göngustígur liggur að námunni frá veginum á milli Eskifjarðar og Vöðlavíkur.

Staðsetning

Gaman í Gleðivík

Eggin í Gleðivík

Við höfnina í Gleðivík á Djúpavík er glæsilegt listaverk eftir Sigurð Guðmundsson. Verkið samanstendur af 34 eggjum jafnmargra fugla sem verpa í Djúpavogshreppi. Eggin eru úr graníti og fylgja lögun eggjanna sem þau líkja eftir. Eggin eru öll merkt sínum fugli með bæði íslensku og ensku heiti.

Gleðivík er í mjög þægilegu göngufæri frá þorpinu, en frá miðbæ Djúpavogs eru um 900 metrar í Gleðivík.

Staðsetning