Safnahúsið í Neskaupstað

Húsið, sem á sér merka sögu, hefur að geyma þrjú glæsileg og afar ólík söfn undir sama þaki; Náttúrugripasafnið, Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar og Sjóminja- og smiðjusafn Jósafats Hinrikssonar. Safnahúsið er fallega staðsett við sjávarsíðuna og þykir endurgerð hússins hafa tekist vel í hvívetna.

Náttúrugripasafnið í Neskaupstað

Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga og ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskt plöntuvísindasafn og skordýrasafn.

Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar

Safnið var stofnað af vélstjóranum og athafnamanninum Jósafat Hinrikssyni sem ættaður var frá Neskaupstað. Safnið byggir á munum sem tilheyra sjávarútvegi, járn- og eldsmíði, bátasmíði og gömlum atvinnuháttum. Einnig geymir safnið eftirlíkingu af eldsmiðju Hinriks Hjaltasonar, föður Jósafats, þar sem Jósafat lærði og hóf starfsferil sinn. Safnið er áhugaverð heimild um framkvæmdir og smíðatækni fyrri ára. Það var áður til húsa í Súðavogi 4 í Reykjavík, þar sem Vélaverkstæði J. Hinrikssonar var til húsa. Árið 2000 afhentu erfingjar Jósafats Fjarðabyggð safnið til varðveislu í Neskaupstað.

Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar

Tryggvi Ólafsson er í hópi þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar en hann skipaði sér snemma á ferlinum í framvarðarsveit íslenskra myndlistarmanna með sérstæðum og auðþekkjanlegum stíl. Tryggvi er fæddur í Neskaupstað árið 1940. Hann hóf ungur að mála og nam myndlist bæði hér á landi og í Kaupmannahöfn. Lengst af starfsævinnar var Tryggvi búsettur í Kaupmannahöfn.

Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar opnaði formlega í september 2001 og færði Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, þá safninu að gjöf verkið Kronos fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Veg og vanda af stofnun safnsins átti Magni Kristjánsson, skipstjóri og æskuvinur Tryggva og var safnið fyrst til húsa í gamla Kaupfélagshúsi bæjarins.