Hammondhátíð

Hammondhátíðin var fyrst haldin árið 2006 og hefur vaxið jafnt og þétt síðan en hún er nú ein af elstu tónlistarhátíðum landsins. Meginhlutverk hátíðarinnar á Djúpavogi er að heiðra og kynna Hammondorgelið. Það er gert með því að fá tónlistarmenn, allt frá heimamönnum til landsþekktra, til þess að leika listir sínar á Hammondorgelið sem er rauði þráðurinn á dagskrá hátíðarinnar.

Hammondhátíð er ávallt sett á sumardaginn fyrsta, en fyrsta kvöldið hefur verið kallað heimakvöld hátíðarinnar (þá spila helst bara heimamenn). Síðustu ár hefur það þó verið að þróast  í austfirskt kvöld, þar sem leitast er eftir því að finna tónlistarmenn og hljómsveitir á Austurlandi til að spila í bland við heimamenn. Á föstudags- og laugardagskvöldinu eru svo tónleikar þar sem stærri og þekktari nöfn leika. Hátíðinni er svo lokið með tónleikum í Djúpavogskirkju, þar sem einsöngvari syngur við undirleik á Hammondorgel.

Hammondhátíð er stærsti menningarviðburður Djúpavogs. Hátíðin er einstaklega mikils fyrir ferðaþjónustuaðila, handverksfólk og alla þá sem bjóða einhverskonar þjónustu, enda fer viðburðum í tengslum við þessa hátíð fjölgandi ár frá ári. Ekki síst er hátíðin mikilvæg fyrir íbúa svæðisins en þetta samheldna samfélag býður upp á tónlistarhátíð á heimsmælikvarða, hátíð sem er sú eina sinnar tegundar í Evrópu.