„Ég kann að meta smábæjarlífið“

William Óðinn Lefever er 32 ára íþrótta- og æskulýðsfulltrúi á Djúpavogi. Hann býr þar ásamt unnustu sinni, Gretu Mjöll Samúelsdóttur, og saman eiga þau eina dóttur, Regínu Önnu. Þrátt fyrir að hafa engin tengsl austur fluttu þau frá Kópavogi fyrir tveimur árum og hafa komið sé vel fyrir á Austurlandi. 

„Mér var einfaldlega boðinn vinna,“ svarar Óðinn aðspurður um ástæður þess að hann flutti austur. „Ég er ættaður að vestan og hvorki ég né konan mín eigum nokkur tengsl austur. „Við bjuggum í Kópavogi og það var ekki planið að flytjan þaðan en þetta tækifæri gafst og við ákváðum að prófa. Ég hugsaði með mér að ef þetta misheppnaðist gætum við flutt suður aftur,“ segir hann.

En þær áhyggjur reyndust óþarfar: „Þetta hefur gengið vonum framar og verið bæði skemmtilegt og auðvelt. Ég held að margir mikli það óþarflega mikið fyrir sér að flytja út á land. Þetta er ekkert mál,“ segir Óðinn og bætir því við að algeng spurning sem hann fékk frá vinum og félögum þegar hann sagði þeim frá flutningnum austur hafi verið hvort ætlunin væri að stoppa lengi. „Fólk gerir ekki ráð fyrir að maður sé að flytja til lengri tíma eða jafnvel fyrir fullt og allt,“ segir hann.

Óðinn starfar sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi hjá Djúpavogshreppi. Starfið er m.a. fólgið í framkvæmdastjórn fyrir Ungmennafélagið Neista, forstöðumennsku í félagsmiðstöðinni, stuðningi við nemendur og ýmsum öðrum verkefnum fyrir sveitarfélagið svo sem eins undirbúningur stofnunar ungmennaráðs þar sem ætlunin er að valdefla unglinga í bænum og veita ungu fólki tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið. „Í grunninn eru allir unglingar eins,“ segir Óðinn. „Og munurinn á unglingum eftir því hvort þeir búa í litlum samfélögum eða stærri fer minnkandi. Samfélagsmiðlar hafa stytt vegalengdir á milli unglinga og ég tek eftir því að krakkar héðan eru í daglegum samskiptum við krakka á Norðfirði, Reyðarfirði eða hvaðan sem er. Þetta var ekki tilfellið fyrir tíu árum síðan og ég held að þetta sé mikið framfaraskref.“

Óðni hefur gengið vel að aðlagast. „Ég kann að meta smábæjarlífið,“ segir hann. „Til að byrja með var þetta þannig að allir þekktu mig en ég engan. Ég er smám saman að verða eins og hinir. Tek t.d. eftir því þegar óþekktur bíll ekur framhjá mér og byrja umsvifalaust að velta fyrir mér hver sitji á bakvið stýrið,“ segir hann og hlær. Og ýmislegt hefur komið honum skemmtilega á óvart: „Annars vegar hvað maður er fljótur að afgreiða öll erindi. Maður hringir í lækni klukkan 10 og fær tíma tveimur klukkutímum síðar svo ég nefni aðeins eitt dæmi. Hins vegar hvað það er í raun og veru mikið að gera hérna og maður er kominn á kaf í félagslífið áður en maður veit af og orðinn þátttakandi í allskyns hliðarverkefnum. Slökkviliðið hafi t.a.m. samband við mig fljótlega eftir að við fluttum, ég kominn með aukavinnu í kennslu, spila á gítar í hljómsveit og svo er ég kominn í skotveiði en hana hafði ég ekki stundað fyrr en ég flutti austur. Þó það sé hægari bragur á bæjarlífinu er gert ráð fyrir að maður sé þátttakandi í samfélaginu og gert ráð fyrir að maður sé tilbúinn að leggja eitthvað að mörkum. Ég reyni að láta ekki mitt eftir liggja.“

Texti: Jón Knútur Ásmundsson. 

Myndir Rhombie Sandoval. 

Lesa nánar