Minning Svavars Péturs Eysteinssonar heiðruð á BRASinu

Svavar Pétur Eysteinsson, Prins póló, hannaði útlit og merki (lógó) BRAS. Hann var áhugasamur um BRASið enda ekki annað hægt! Stýrihópur BRAS fékk þá góðu hugmynd í fyrra að heiðra minningu Svavars með einhverjum hætti og var ákveðið að fara í samstarf við Havarí og Berglindi, eiginkonu Svavars. Niðurstaðan varð sú að tvö verkefni hátíðarinnar eru tileinkuð Svavari og verða þau framkvæmd í kringum afmælisdaginn hans, þann 26. apríl.

Annað verkefnið er diskótek sem haldið verður á fjórum stöðum á Austurlandi sumardaginn fyrsta, þann 25. apríl.
Vopnafjörður: Mikligarður
Eskifjörður: Valhöll
Egilsstaðir: Sláturhús
Djúpivogur: Íþróttamiðstöð

Öll eru velkomin og það er enginn aðgangseyrir.  Við ætlum að dansa saman og fagna lífinu. Tímasetningar verða auglýstar síðar.

Hinn viðburðurinn er söngur leikskólabarna en börn í flestum leikskólum á Austurlandi hafa æft þrjú af lögum Svavars í vetur.  Miðvikudaginn 24. apríl munu börnin, með aðstoð leikskólastarfsfólks, flytja lögin um allt Austurland. Hver leikskóli fyrir sig hefur sinn háttinn á og gert er ráð fyrir því að í einhverjum tilvikum verði forráðamönnum og jafnvel öðrum gestum boðið að koma og fylgjast með.

Með þessum viðburðum vill stýrihópur BRAS heiðra minningu þessa góða drengs sem var svo mikill lífskúnstner og hafði einstaka hæfileika í því að sjá spaugilegar hliðar á hversdeginum og koma þeim í orð.

Heiðrum minningu Svavars Péturs – áfram BRAS.