BRAS 2023 – Minjasafn Austurlands

Minjasafn Austurlands leggur til safnfræðsluverkefni í tengslum við BRAS 2023, en markmiðið með verkefnunum er að kynna íslenska sögu og menningararf fyrir nemendum í grunnskólum Múlaþings í gegnum skapandi vinnu undir handleiðslu reyndra listamanna.

Að þessu sinni verður lögð áhersla á óáþreifanlegan menningararf í sinni víðustu merkingu og verðum við með nokkrar smiðjur í gangi. Með óáþreifanlegum menningararfi er átt við „siðvenjur, framsetningu, tjáningarform, þekkingu og færni sem samfélögin eða hópar telja hluta af menningararfleið sinni og geta m.a. birst í munnlegri hefð og tjáningu, sviðslistum, félagsvenjum, helgisiðum og hátíðahöldum, þekkingu og venjum sem tengjast náttúrunni og alheiminum sem og í hefðbundinni verkkunnáttu“ eins og segir á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar.

Fjórir grunnskólar Múlaþings fá til sín tvær farandsmiðjur. Annars vegar smiðju þar sem nemendur fá innsýn inn í baðstofumenningu fyrr á tímum og kynnast hljóðfærinu langspili undir handleiðslu tónlistarmannsins og þjóðfræðingsins Eyjólfs Eyjólfsssonar. Hver nemandi fær í hendur langspil til að spreyta sig á. Hins vegar fá nemendur að læra þá sígildu iðn að tálga við undir handleiðslu Bjarka Sigurðssonar starfsmann Skógræktarinnar í Hallormsstaðaskógi. Einnig mun fara fram tóvinnusmiðja á safninu og fá nemendur í 5. bekk Egilsstaðaskóla að koma nokkrum sinnum á safnið og kynnast gömlu handbragði með því að umbreyta ull í band.

Smiðjurnar fara fram í september og október. Einnig stefnir safnið á að bjóða upp á opnar smiðjur og verða þær auglýstar síðar.

Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Austurlands, Safnaráði og Múlaþingi.