Laust mál – Listfræðsluverkefni Skaftfells 2023

Listfræðsluverkefni Skaftfells 2023

Listfræðsluverkefni Skaftfells árið fór fram 11. – 21. september og var unnið samhliða haustsýningu Skaftfells 2023 Laust mál. Sýningin inniheldur verk eftir skáld og myndlistarmenn sem á róttækan og skapandi hátt brjótast út úr hefðbundnu formi bókbundins ljóðs og var verkefnið þróað í þeim anda af listamönnum sem taka þátt í sýningunni.

Nemendum á elsta stigi á Austurlandi og Norðausturlandi var boðið í heimsókn á Seyðisfjörð þar sem þau fengu leiðsögn um sýninguna og tóku þátt í tveim listasmiðjum þar sem þau unnu með texta, ljóðagerð og prent á óhefðbundin og skemmtilegan hátt.

Smiðjan ‘Bráðnandi myndir’ notaði naíva prenttækni til að gera abstract myndir. Vaxlitir voru bræddir á álplötur og síðan fluttir yfir á pappír. Með þessu voru mistök og slys boðin velkomin og samsetning íhuguð eftir á. Smiðjan ‘Karawane Killi Mara Kussu Mu’ fagnaði útþenslu tungumálsins með vitleysunni að vopni. Merking og tákn orða og stafa var skorin niður og sett saman á annan hátt til að þróa aðra og spennandi tengingu við tungumál meðal annars með hjálp vitleysuljóðlist. Þátttakendum gafst tækifæri til að kafa dýpra í skrif og lestur í leik og tilraunum og voru hvött til að finna upp ný orð og blanda saman orðum á ýmsum tungumálum. Markmið verkefnið var að efla sköpun í tengslum við hljóð, stafi, lestur og myndlist og var leikgleði notuð sem hjálpartæki við gerð mynda jafnt sem skrifa.

Listamenn sem komu að verkefninu voru Ásta Fanney Sigurðardóttir, Joe Keys og Anna Margrét Ólafsdóttir.

Sjö skólar á Austurlandi og Norðausturlandi tóku þátt í verkefninu eða um 100 krakkar. Fimm skólar komu í heimsókn á Seyðisfjörð en smiðjurnar heimsóttu einnig tvo skóla, Vopnafjarðarskóla og Öxarfjarðarskóla í samstarfi við List fyrir alla. Þess má geta að Grunnskólinn á Þórshöfn lagði á sig langferð til að taka þátt í verkefninu og var frábært að fá þau í heimsókn.

Verkefnið er hluti af List fyrir alla og BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi og er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands.