Kyrrðin er okkar sérstaða

Við heimsóttum Vopnafjörð í sumar og tókum hús á Sigríði Bragadóttur sem rekið hefur búskap og ferðaþjónustu í næstum fjörutíu ár á Síreksstöðum nálægt Vopnafirði og sýnt mikla aðlögunarhæfni svo lífið í sveitinni gangi upp.

Síreksstaðir eru í Sunnudal, litlum og friðsælum dal inn af Hofsárdal. í Vopnafirði. Þar er gistihús og tvö sumarhús, hlýleg og vel búin öllum þægindum. Hentug fyrir alla þá er áhuga hafa fyrir að komast út og upplifa náttúruna og kyrrðina. Á Síreksstöðum er einnig rekinn veitingastaðurinn „Hjá okkur“ sem býður upp á fjölbreyttan og góðan mat og leitast er við að vera með sem mest af hráefni frá búinu og nágrenninu.

Á Síreksstöðum er stundaður hefðbundinn búskapur og njóta gestir stúkusæta sem áhorfendur að bússtörfunum: „Hér er upplagt að upplifa kyrrðina og rólegheitin, hlusta á fuglasönginn og skoða plöntulífið. Staðurinn er fjölskylduvænn og dvöl í sveitasælunni er vel þess virði að upplifa,“ segir Sigríður á Síreksstöðum sem rekið hefur ferðaþjónustuna á staðnum ásamt manni sínum Halldóri Georgssyni síðan 2009. „Kyrrðin er okkar sérstaða,“ segir hún. „Það og að geta boðið upp á lambakjöt héðan af staðnum á veitingastaðnum okkar. Við kaupum ekkert nema við séum tilneydd í rauninni. Reynum eftir bestu getu að rækta okkar eigið grænmeti og vera sjálfbær.“

„Hér er líka alls kyns afþreying á staðnum; leiktæki, rólur, rennibraut, sandkassi. Við erum með dagsferðir á jeppa um nágrennið, nágrannasveitarfélög og hálendið. Svo má ekki gleyma að Minjasafnið á Bustarfelli er hérna rétt hjá og gönguleiðir um allt, veiði í ám og vötnum og fleira. Það leiðist engum á Vopnafirði,“ segir hún.

Þarf að vera svolítið klikkaður

„Við áttum heima í Sandgerði og langaði að breyta til,“ segir Sigríður en hún og maður hennar (Halldór Georgsson) fluttu austur haustið 1979 og hófu búskap á Síreksstöðum: „Ég hafði aldrei verið í sveit og vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Við þurftum að taka allt í gegn, öll útihús og íbúðarhúsið sjálft, en maðurinn minn er smiður og það kom sér mjög vel.“ Á Síreksstöðum hafa þau rekið sauðfjárrækt og síðar kúabúskap en fóru svo í rekstur ferðaþjónustu árið 2009.

Hvernig átti það við þig að vera bóndi?

„Það átti vel við mig. Ég held ég hafi samt aldrei unnið jafn mikið og eftir að ég kom í sveitina. Mér fannst það samt spennandi og skemmtilegt. Ég var kannski ekki í sparifötunum, skítug upp fyrir haus flesta daga, en það var allt í lagi. Það er til vatn og maður fer þá bara í sturtu þurfi maður að skreppa á fund, kóræfingu eða eitthvað annað,“ segir Sigríður sem alla tíð hefur verið dugleg að sinna félagsmálum auk vinnunnar og bætir við:

„Svo er það þannig að þegar þú býrð í sveit þarftu að hafa eitthvað annað að gera nema búið sé svo stórt að það standi undir sér. Ég hef því t.d. séð um bókhald fyrir aðra bændur í mörg ár og Halldór hefur ekið sláturbíl svo ég nefni eitthvað. Maður vinnur eiginlega alla daga þegar maður býr í sveit. Maður þarf að vera svolítið klikkaður til að standa í þessu,“ segir hún og hlær.

Okkur langaði ekki að flytja

Hvað verður svo til þess að þið farið í ferðaþjónustu?

„Við náðum aldrei í skottið á tækninni í kúabúskapnum og þetta gekk einhvern veginn ekki upp. Við hefðum þurft að fara í svo mikla og dýra fjárfestingu til að halda okkur á tánum og við sáum okkur einfaldlega ekki fært að gera það. Þannig að við hættum, fjölguðum fénu og fórum svo út í ferðaþjónustuna líka. Okkur langaði ekki að flytja og svo hef ég alltaf verið bjartsýn á að ferðaþjónusta muni eflast í framtíðinni. Ég trúi því að fleiri ferðamenn muni heimsækja okkur, að þeir „sjái ljósið“ þegar þeir hafa upplifað þessa litlu staði eins og okkar fyrir utan þjóðveg 1.

Eru vaxtamöguleikar ferðaþjónustunnar miklir hérna?

„Já, ég held það. Ef við værum fleiri hérna í ferðaþjónustu værum við líka fleiri sem kæmum að markaðssetningu staðarins. Svo er það bara okkar að gera betur en hinir. Finna sérstöðuna og átta sig á styrkleikunum. Eftir því sem umferðin til okkar eykst þeim mun fleiri möguleikar verða fyrir hendi. Kannski er það verkefnið í hnotskurn: Við höfum fullt af möguleikum en okkur vantar fleiri hendur til að byggja upp þjónustuna og afþreyinguna.“

Stoltur bóndi

Þegar við hittum Sigríði í júní sagði hún okkur að breytingar væri framundan á Síreksstöðum. Hjónin væru hætt með reksturinn og dóttir þeirra tæki von bráðar við. „Ég geri ráð fyrir að ég verði áfram viðloðandi reksturinn. Við höfum alltaf fengið aðstoð frá stelpunum okkar og við munum aðstoða eins og við getum þótt við séum formlega hætt. Það getur enginn staðið í þessu einn, fólk þarf aðstoð. Þar fyrir utan hættir maður aldrei að vera bóndi. Ég er stolt af því og mun alltaf kalla mig bónda,“ sagði Sigríður á Síreksstöðum.

Lesa nánar