Hvers vegna Austurland?

Hverjir búa á Austurlandi? Fjórðungurinn leynir á sér og er talsvert fjölbreyttari en þú gætir haldið við fyrstu sýn. Við báðum blaðamanninn Carolyn Bain að svipast um fyrir austan og kanna hvers vegna sumir hafa ákveðið að setjast hér að þrátt fyrir að vera fæddir og uppaldir annars staðar – sumir langt, langt í burtu.

Celia Harrison

Celia er listamaður og hönnuður, fædd á Nýja-Sjálandi. Hún er einn stofenda listahátíðarinnar List í ljósi á Seyðisfirði en á hátíðinni er bærinn lýstur upp með verkum listamanna hvaðanæva að. Celia kom fyrst til Austurlands árið 2015 til listamannadvalar og nú segir hún Seyðisfjörð vera sinn heimabæ.

Af hverju elska ég Austurland?

Ég kom með ferjunni og varð hugfagin af Seyðisfirði um leið og ferjan sigldi inn fjörðinn. Fjörðurinn var falinn í þykkri þoku en litríku húsin kölluðu á mig. Það er eitthvað afskaplega sérstakt við Austurland, fólkið, landslagið, plássið. Á Seyðisfirði ertu umvafinn fjöllum sem teygja sig niður í sjó. Þau fylla þig öryggiskennd en minna þig á sama tíma á krafta náttúrunnar. Ég fyllist sköpunarkrafti í náttúrunni. Heimamaður sagði mér að það væri vegna kristallanna…

Uppáhaldsstaðurinn minn

Útsýnið út um gluggann minn, þegar ég vakna á morgnanna, fær mig til að hugsa um hversu heppin ég er.

Cathy Josephson

Cathy er frá Minnesota í Bandaríkjunum en býr nú á Vopnafirði. Tengsl hennar við Ísland má rekja aftur margar kynslóðir. Amma hennar og afi fluttu frá Vopnafirði árið 1893. Cathy heimsótti Ísland í fyrsta sinn árið 1994 og er nú gift Íslendingi. Hún vinnur Vesturfarasetrinu á Vopnafirði þar sem hún aðstoðar afkomendur vesturfara við að rekja uppruna sinn.

Af hverju elska ég Austurland?

Ég kem af bændum í marga ættliði en ég ákvað að „skoða mig um”, eins og margt ungt fólk gerir. Árið 1994 kom ég til Íslands með pabba mínum, systkinum og öðru skyldfólki. Ég varð heilluð af Íslandi. Eftir að hafa búið í borgum og bæjum í Virginíu, Kaliforníu, Georgíu og Minnisota, langt frá fjölskyldu og vinum, fannst mér ég loksins vera komin heim á Austurlandi.

Uppáhaldsstaðirnir mínir

Staðirnir sem eru í uppáhaldi hjá mér eru þeir staðir sem ég heimsæki með gestum okkar frá Bandaríkjunum. Starf okkar í Vesturfarasetrinu snýst um að sameina fjölskyldur. Margir yfirgáfu Austurland og afkomendur þeirra heimsækja okkur á hverju sumri, spyrja um fjarskylda ættingja og hvar forfeðurnir bjuggu. Staðirnir sem gestirnir okkar leita að eru þannig okkar staðir, þann daginn. Þeirra fjölskyldur verða hluti af okkur fjölskyldu.

Öll landsbyggðin er sérstök í mínum huga en ég á mér auðvitað mitt uppháldsathvarf á Refsstað í Hofsárdal. Mér þykir sérstaklega gaman að koma þangað þegar sumarblómin vaxa, jarðarberin eru orðin rauð og sæt, það skrjáfar í grasinu á túnunum og ungarnir fljúga úr hreiðrunum. Eða þegar sólin hnígur til viðar og gyllir landið í kring. Nú, eða kannski frekar þegar norðurljósin dansa á næturhimninum í allri sinni litadýrð og slást við jólatréð okkar um athyglina.

Charles Ross 

Charles er tónlistarmaður, tónskáld, þjóðháttatónlistarmaður og tónlistarkennari. Hann er fæddur í Bretlandi, ólst upp í Skotlandi en hefur búið á Austurlandi síðan 1986. Hann semur tónlist og leikur hana með ýmsu hljómsveitum og hópum, m.a. nútímahljómsveitinni Stelk og starfar bæði á Eiðum og Fáskrúðsfirði.

Af hverju elska ég Austurland?

Það eru margar ástæður fyrir því. Fólkið (eða réttara sagt fámennið), stórskorin og klettótt strandlengjan og furðufuglarnir (en ég er orðinn einn þeirra). Nýskógræktin og renglulegu, kræklóttu og smávöxnu trén. Dýralífið og hálftömdu dýrin í kringum sveitabæina. Risastór himininn. Tilfinningin sem ég fæ þegar ég hugsa um að ég hafi komið hingað einn en sé nú umkringdum fjölskyldu. Mikilvægasta ástæðan er líklega draugalega, skyni gædda landslagið sem hægt og rólega umvefur mann og smýgur inn í hugann, líkamann og sálina.

Uppáhaldsstaðurinn minn

Húsatjörn við Eiðar er dásamlegt vatn umvafið skóglendi. Næstum öll mín tónlist á sér upphaf þar þegar ég geng í kringum vatnið, læt mig dreyma og hugsa. Líka Kolfreyjustaður á skaganum á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar vegna víðáttunnar og þar stendur tíminn í stað.

Nelita Vasconcellos

Nelita er kennari og tungumálasérfræðingur frá São Paulo í Brasilíu. Hún hefur búið á Íslandi í meira en sex ár, þar af tvö ár fyrir vestan og tvö fyrir sunnan. Nú býr hún á Djúpavogi með íslenskum eiginmanni sínum. Nelita tekur þátt í ýmsum verkefnum, m.a. leiðsögn fyrir erlenda ferðamenn á svæðinu.

Af hverju elska ég Austurland?

Ég elska óbeislaða náttúruna og mikilfenglegu þokuna sem gleypir okkur og býr til töfrandi og óraunverulegt andrúmsloft. Allt í kringum okkur er stórkostleg náttúrufegurð og skilaboð Djúpavogs um að hægja á okkur og njóta er eitthvað sem við ættum öll að hlusta vel á.

Uppáhaldsstaðurinn minn

Ég elska að klifra í klettunum á ströndinni á Djúpavogi, sértsaklega þegar öldurnar eru háar eða óveður er. Ég horfi á öldurnar skella á klettunum, anda að mér ferska loftinu og finn hamingjuna innra með mér. Ég geri þetta (næstum) á hverjum degi, hvernig sem veðrið er.

Textinn er eftir hina áströlsku Carolyn Bain. Hún skrifar um ferðalög sín og hefur heimsótt Skandinavíu reglulega í næstum 30 ár. Hún hefur skrifað fjölda ferðahandbóka og greina um áfangastaði um allan heim m.a. fyrir Lonely Planet og BBC Travel. Henni þykir ákaflega vænt um Ísland.

Mynd efst og til vinstri: Rhombie Sandoval. 

Lesa nánar